Stóri plokkdagurinn 27. apríl 2025
Stóri plokkdagurinn verður haldinn með pompi og prakt um allt land sunnudaginn 27. apríl næstkomandi.
Það er Rótarýhreyfingin á Íslandi sem skipuleggur daginn með aðstoð og atfylgi góðra bakhjarla. Markmið Rótarýhreyfingarinnar er að dagurinn sé ætlaður öllum sem vilja skipuleggja hreinsunarátak á þeim degi, eða eftir atvikum öðrum degi á svipuðum tíma. Þannig er öllum heimilt að nota merki dagsins og myndefni tengt honum til kynningar á verkefnum tengdum plokki og umhverfishreinsun. Hér má sjá Facebook síðu Plokkdagsins.
Þetta er skemmtilegur árlegur viðburður í þágu samfélagsins, endilega verum sem flest með – margar hendur vinna létt verk!
Bætum við að plokkið getur átt við víða – í garðinum heima, við fyrirtækið, kringum útihúsin, á opnum grænum svæðum, meðfram veginum.
HVAÐ ÞARF ÉG?
Glæra plastpoka - ágætt er að hafa tvo poka, setja plastið í einn og allt annað í hinn.
Snæri eða bensli til að loka plastpokunum svo ekkert fjúki úr þeim þegar búið er að fylla þá.
Plokktangir eru ágætar, ekki nauðsynlegar.
HVERNIG ERUM VIÐ ÚTBÚIN
Klæðum okkur eftir aðstæðum. Hanskar eru ákjósanlegir. Öryggisvesti eru ákjósanleg en skylda ef við erum að plokka meðfram vegum eða við götur.
Umhverfis-, skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd Hvalfjarðarsveitar hvetur íbúa sveitarfélagsins til að taka þátt og sameina t.d. góða og heilsusamlega útiveru og plokkið.