Fara í efni

Söguskilti afhjúpað við Miðgarð

Brynja Þorbjörnsdóttir, formaður Menningar- og markaðsnefndar Hvalfjarðarsveitar, Halldór Blöndal, f…
Brynja Þorbjörnsdóttir, formaður Menningar- og markaðsnefndar Hvalfjarðarsveitar, Halldór Blöndal, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, Linda Björk Pálsdóttir, sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar og Haraldur Benediktsson, alþingismaður.

Laugardaginn 27. nóvember sl. var afhjúpað skilti við Miðgarð.  Á skiltinu sem heitir Innnes er farið yfir sögu Jóns Hreggviðssonar, Péturs Ottesen, Ytra-Hólms og Innri-Hólms ásamt Innri-Hólmskirkju.  Linda Björk Pálsdóttir sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar flutti ávarp og að því loknu afhjúpaði Halldór Blöndal fyrrverandi alþingis-maður og ráðherra söguskiltið. Hann minntist Péturs Ottesen alþingismanns Borgfirðinga.  Að því loknu var stund inni í félagsheimilinu Miðgarði þar sem Haraldur Benediktsson á Vestra-Reyni minntist Jóns Hreggviðssonar.  Kirkjukór Saurbæjarprestakalls söng nokkur jólalög undir stjórn og undirleik Zsuzsanne Budai og Silja Rós Sigurðardóttir lék á þverflautu.

Þetta er annað skiltið sem er liður í verkefninu „Merking sögu og merkisstaða í Hvalfjarðarsveit“. Verkefnið er unnið í samstarfi við Markaðsstofu Vesturlands og byggir á samstarfi þriggja sveitarfélaga við Hvalfjörð sem eru  Hvalfjarðarsveit, Kjósarhreppur og Akranes og gengur út á þróun ferðaleiðar um Hvalfjörð og út á Akranes.  Verkefnið nýtur stuðnings frá Sóknaráætlun Vesturlands, Styrktarsjóði EBÍ og Faxaflóahöfnum og kann sveitarfélagið þeim bestu þakkir fyrir þeirra framlag.  Kærar þakkir eru einnig færðar sveitungum sem lagt hafa verkefninu lið við miðlun fróðleiks, yfirlestur og ábendingar.

Góð mæting sveitunga og gesta var á viðburðinn sem fram fór í fínu veðri en Jólamarkaður sóknarnefndar Innri-Hólmskirkju fór fram í Miðgarði þessa helgi.  

 Fleiri myndir frá athöfninni má sjá hér