Fara í efni

Söguskilti afhjúpað á Leirá

Ásgeir Örn Kristinsson frá Leirá, Brynja Þorbjörnsdóttir, fomaður Menningar- og markaðsnefndar Hvalf…
Ásgeir Örn Kristinsson frá Leirá, Brynja Þorbjörnsdóttir, fomaður Menningar- og markaðsnefndar Hvalfjarðarsveitar, Linda Björk Pálsdóttir, sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Á sumardaginn fyrsta í blíðskaparveðri og fjölmenni þann 21. apríl sl. var afhjúpað söguskilti á Leirá. Á skiltinu er farið yfir sögu Leirárkirkju, prentsmiðjuna á Leirárgörðum og Beitistöðum og sagt frá Magnúsi Stephensen og Jóni Thoroddsen. Linda Björk Pálsdóttir sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar flutti ávarp og að því loknu afhjúpaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skiltið og sagði frá tengslum sínum við Jón Thoroddsen. Ásgeir Kristinsson frá Leirá sagði síðan frá sögu staðarins ásamt börnum sínum, Finni Ara, Írisi Jönu og Hafliða. Kór Saurbæjarprestakalls söng nokkur lög undir stjórn og undirleik Zsuzsanne Budai. Í lokin var boðið upp á veitingar sem sóknarnefnd Innra-Hólmskirkju sá um. Menningar - og markaðsnefnd færir öllum þeim sem komu að dagskránni með einum eða öðrum hætti innilegar þakkir fyrir þeirra aðstoð og framlag við að gera daginn eins glæsilegan og raun bar vitni.

Þetta er þriðji liður í verkefninu „Merking sögu og merkisstaða í Hvalfjarðarsveit“ en áformað er að merkja tíu staði víðsvegar í sveitarfélaginu. Verkefnið nýtur stuðnings frá Sóknaráætlun Vesturlands, Styrktarsjóði EBÍ, Faxaflóahöfnum og Mjólkursamsölunni og kann sveitarfélagið þeim bestu þakkir fyrir þeirra framlag. Kærar þakkir eru einnig færðar sveitungum sem lagt hafa verkefninu lið við miðlun fróðleiks, yfirlestur og ábendingar.

Fleiri myndir frá athöfninni má sjá hér