Fara í efni

Staða skólastjóra Heiðarskóla í Hvalfjarðarsveit laus til umsóknar

Hvalfjarðarsveit leitar að framfarasinnuðum, skapandi og farsælum leiðtoga til að stýra Heiðarskóla frá og með næsta skólaári.

Heiðarskóli er hluti af Leik- og grunnskóla Hvalfjarðarsveitar þar sem skólastjórar bera ábyrgð hvor í sínum skóla ásamt því að viðhalda og þróa áfram öflugt samstarf milli skólanna í sameiginlegri skólastjórn.

Skólastjóri er fyrst og fremst faglegur leiðtogi sem fylkja þarf liði um stefnu skólans og árangursríka starfshætti. Leitað er að bjartsýnum, lausnamiðuðum og metnaðarfullum einstaklingi með árangursríkan starfsferil og áherslu á velferð og framfarir nemenda í góðu samstarfi við starfsfólk og foreldra. Skólastjóri stýrir og ber ábyrgð á daglegum rekstri, mannauðsmálum, annarri starfsemi skólans og að skólastarf sé í samræmi við lög og reglugerðir.

Helstu verkefni og ábyrgðarsvið:

  • Stjórnun og ábyrgð á daglegum rekstri
  • Fagleg forysta í skólastarfi.
  • Virk þátttaka í þróun, eflingu og skipulagi skólastarfs.
  • Samstarf við sveitarstjórn og aðila skólasamfélagsins.

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Kennaramenntun og leyfisbréf grunnskólakennara er skilyrði
  • Leiðtogahæfni, metnaður og áhugi á skólaþróun og nýjungum í skólastarfi er skilyrði
  • Þekking og reynsla af rekstri og stjórnun er æskileg.
  • Framhaldsmenntun á sviði stjórnunar og kennslufræða er æskileg
  • Sérstök áhersla er lögð á að viðkomandi búi yfir lipurð í samstarfi, sveigjanleika og hæfni í mannlegum samskiptum.
  • Góðir skipulagshæfileikar og frumkvæði er kostur.
  • Gerð er krafa um vammleysi s.s að vera með gott orðspor og að framkoma og athafnir á vinnustað og utan hans samrýmist starfinu.

Umsókn skal fylgja afrit af leyfisbréfi og ítarleg starfsferilskrá ásamt greinargerð þar sem m.a. komi fram ástæða umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni viðkomandi til starfsins.

Starfsfólk Heiðarskóla hefur tekið virkan þátt í þróunarstarfi á síðustu árum þar sem m.a. hefur verið lögð áhersla á þróun fjölbreyttra kennsluhátta og teymisvinnu/teymiskennslu. Framundan er áframhaldandi spennandi skólaþróun.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands.

Umsóknarfrestur er til og með 15. febrúar 2026.

Móttaka umsókna fer fram á alfred.is 

Nánari upplýsingar um starfið veita:

Linda Björk Pálsdóttir,sveitarstjóri, linda@hvalfjardarsveit.is
Freyja Þöll Smáradóttir, deildarstjóri Velferðar- og fræðsludeildar, felagsmalastjori@hvalfjardarsveit.is
Sigríður Lára Guðmundsdóttir, skólastjóri Heiðarskóla, sigridur.gudmundsdottir@hvalfjardarsveit.is

Heiðarskóli er í nýlegu skólahúsnæði við Leirá, nemendur hafa á undanförnum árum verið í kringum 90 og starfsfólk um 25. Skólinn leggur áherslu á fjölbreytta kennsluhætti í anda leiðsagnarnáms og unnið er samkvæmt hugmyndafræði um teymi og teymiskennslu. Stigum er skipt upp í teymi starfsfólks sem ber sameignlega ábyrgð á námi, kennslu og velferð hvers nemendahóps. Unnið er eftir uppbyggingarstefnu með áherslu á læsi og umhverfismennt. Aðstaða skólans er öll hin besta og skólinn vel tækjum búinn. Markmið skólans er að vera í fremstu röð með framfarir að leiðarljósi og fagmennsku í fyrirrúmi og að börn njóti skólagöngu sinnar og öðlist með menntun sinni og uppeldi, styrk og hæfni til að nýta þau tækifæri sem samfélag framtíðarinnar býður upp á.