Fara í efni

Skóflustungur að nýju íþróttahúsi við Heiðarborg

Fimmtudaginn 30. maí sl. voru teknar fyrstu skóflustungur að nýju íþróttahúsi við Heiðarborg en um er að ræða stærstu einstöku framkvæmd sveitarfélagsins í rúman áratug auk þess sem framkvæmdin er stór og mikill áfangi í innviðauppbyggingu í ört vaxandi sveitarfélagi.

Verkefnið á sér langa sögu en vinna að því hófst í upphafi síðasta kjörtímabils og frá upphafi hefur verið vandað til verka á hverju stigi þess sem endurspeglast í þeim fjölda einstaklinga sem komið hafa að verkefninu, á einn eða annan hátt, í gegnum árin. Öllum þeim, hvort sem eru kjörnir fulltrúar, nefndarfólk, starfsfólk sveitarfélagsins eða utanaðkomandi sérfræðingar, eru færðar kærar þakkir fyrir þeirra vinnu og aðkomu að verkefninu hingað til.

Húsið var hannað af ASK arkitektum og kann sveitarfélagið þeim allra bestu þakkir fyrir farsælt og gott samstarf. Fyrsti áfangi framkvæmdarinnar, þ.e. jarðvinna, uppsteypa, frágangur utanhúss ásamt grófjöfnun lóðar verður í höndum K16 ehf. en verkfræðistofan Efla mun sjá um verkefna- og byggingarstjórn ásamt byggingareftirliti. Íbúar og gestir sem fara þurfa um svæðið eru beðnir um að sýna aðgát og skilning á aðstæðum meðan framkvæmdir standa yfir en áætluð verklok þessa fyrsta áfanga eru 1. júlí 2025.

Bygging nýs íþróttahúss er framkvæmd sem lengi hefur verið beðið eftir og unnið að. Það er ekki einungis íþróttakennsla grunnskólabarna sem mun njóta nýrrar aðstöðu heldur svo ótal margt fleira sem nýja byggingin mun færa samfélaginu. Hugsjónin er að með nýju íþróttahúsi verði Heiðarborg samfélagsmiðstöð sem rúmi skóla-, íþrótta, frístunda-, félags- og samkomustarf fyrir alla aldurshópa. Þannig er markmiðið að styðja við og efla þróun íþrótta- og frístundastarfs í sveitarfélaginu og um leið stuðla að almennri lýðheilsu allra íbúa Hvalfjarðarsveitar t.a.m. með heilsueflingu og styrkingu forvarna. Heiðarborg hýsi og rúmi þannig til framtíðar fjölbreytt og öflugt starf öllum íbúum og gestum sveitarfélagsins til heilla og að þar sjái öll sér hag í að virkja og nýta aðstöðuna þannig að hún blómstri frá fyrsta degi.

Fyrstu skóflustungur voru í höndum fyrrverandi oddvita sveitarstjórnar, Björgvins Helgasonar, núverandi oddvita sveitarstjórnar, Andreu Ýr Arnarsdóttur, formanns mannvirkja- og framkvæmdanefndar, Guðjóns Jónassonar, verkefnastjóra framkvæmda og eigna, Hlyns Sigurdórssonar, framkvæmdastjóra K16 ehf., Hannesar Baldurssonar og sveitarstjóra, Lindu Bjarkar Pálsdóttur.

Myndir frá fyrstu skóflustungum að nýju íþróttahúsi við Heiðarborg.