Fara í efni

Skipulagsbreytingar

Ný deild, Umhverfis- og skipulagsdeild, hefur verið stofnuð innan stjórnsýslu sveitarfélagsins.

Helstu verkefni nýrrar deildar eru á sviði skipulags-, framkvæmda- og byggingarmála, umhverfis-, náttúruverndar- og landbúnaðarmála.

Innan Umhverfis- og skipulagsdeildar munu starfa deildarstjóri og þrír verkefnastjórar.

Jökull Helgason verður deildarstjóri en hann hefur starfað fyrir sveitarfélagið í skipulags- og byggingarmálum síðan í apríl 2021. Jökull mun hefja störf sem deildarstjóri þann 1. júní nk.

Hlynur Sigurdórsson er verkefnastjóri framkvæmda og eigna og hefur starfað hjá sveitarfélaginu síðan í september 2019. Helstu verkefni Hlyns eru m.a. umsjón með eignum sveitarfélagsins, umsjón með veitumálum og ýmsum verklegum framkvæmdum.

Helga Harðardóttir hóf störf sem verkefnastjóri Umhverfis- og skipulagsdeildar í mars 2024. Helga hefur langa reynslu af vettvangi sveitarfélaga og hefur áður starfað hjá sveitarfélaginu við ýmis verkefni, setið í nefndum o.fl. en helstu verkefni hennar verða á sviði umhverfis- og skipulagsmála.

Gísli Tryggvason hóf einnig störf hjá sveitarfélaginu í mars 2024 sem verkefnastjóri Umhverfis- og skipulagsdeildar. Gísli hefur langa reynslu af byggingarmálum og hefur áður unnið á vettvangi sveitarfélaga en hans helstu verkefni verða á sviði byggingar- og skipulagsmála.

Guðný Tómasdóttir móttökuritari og skjalavörður mun, líkt og áður, koma að mörgum verkefnum hjá Umhverfis- og skipulagsdeild, m.a. að skráningu lóða og mannvirkja, undirbúningi og eftirfylgni funda svo eitthvað sé nefnt.

Markmið sveitarfélagsins með stofnun Umhverfis- og skipulagsdeildar er m.a. að efla þann slagkraft sem ofangreind verkefni þarfnast í ört vaxandi sveitarfélagi með stöðugleika og trausta og faglega þjónustu að leiðarljósi.