Fara í efni

Plokkað í Hvalfjarðarsveit

Stóri plokkdagurinn er sunnudaginn 30. apríl og Hvalfjarðarsveit, í samstarfi við Kvenfélagið Lilju og Ungmenna- og íþróttafélag Hvalfjarðarsveitar ætlar að taka þátt í deginum, sjá viðburð á facebook.

Allir eru hvattir til að taka þátt, hvort sem það er með því að vera þátttakandi í skipulögðum viðburði eða einfaldlega skella sér í góða skó og plokka í sínu nærumhverfi. Það er heilsusamleg útivera og gott fyrir umhverfið.

Í tilefni af Degi umhverfisins sem var þann 25. apríl sl. skelltu nemendur og starfsfólk Skýjaborgar og Heiðarskóla sér í útiveru og plokk. Skýjaborgarbörn gengu um Háamel og fundur heilmikið rusl og spáðu þau í uppruna þess og hvaða úrgangsflokki það tilheyrði. Til að gera ferðina enn skemmtilegri, var nesti borðað úti í móa enda veðrið gott. Heiðarskóli fór í vettvangsferð í Hafnarskóg þar sem miðstigið og yngsta stigið héldu í fjöruna en unglingarnir gengu frá Hótel Hafnarfjalli og að Höfn, alls 7,5 km leið. Lítið var af rusli á svæðinu, svo minna fór fyrir plokki en til stóð. Það er bara mjög jákvætt.

Nánari upplýsingar um Stóra plokkdaginn og fleira honum tengt má finna á þessari síðu: https://plokk.is/