Fara í efni

Öflugt atvinnulíf í Hvalfjarðarsveit

Skoðaðu nánar hér:

Í Hvalfjarðarsveit eru landbúnaður, iðnaður og ferðaþjónusta helstu atvinnugreinar. Margskonar landbúnaðarstarfsemi er í sveitarfélaginu, kúa- og sauðfjárbú eru allmörg og hrossarækt víða stunduð ásamt rekstri eins svínauppeldisbús og tveggja kjúklingabúa.

Ferðaþjónusta er víðsvegar um sveitarfélagið, hótel eru rekin á Laxárbakka við Leirá og undir Hafnarfjalli auk tjaldsvæðis við Lambhaga, gistingar á Móum og ferðaþjónustu á Bjarteyjarsandi. Hernámssetrið á Hlöðum er einstök upplifun í Hvalfirði og yfir laxveiðitímann er veiðihúsið við Leirá þéttsetið. Sumarbúðir eru reknar af KFUM og KFUK bæði í Ölver og Vatnaskógi, sem njóta mikilla vinsælda ár hvert.

Á Grundartanga er öflugt atvinnusvæði með fjölþætta starfsemi og þar er ein stærsta höfn landsins, Grundartangahöfn. Fyrirtækjum á svæðinu fer fjölgandi en þau eru nú um 20 talsins og starfsmenn um 1.100 auk þess sem áætla má að nærri sami fjöldi hafi atvinnu af þjónustu sem tengist starfseminni með óbeinum hætti. Svæðið, sem er eitt best vaktaða iðnaðarsvæði í heimi, leggur m.a. áherslu á uppbyggingu fyrirtækja sem stuðla að framhaldsvinnslu þeirra afurða sem falla til á Grundartanga, starfsemi sem byggir á endurnýtanlegri orku og veldur lágmarks umhverfisáhrifum og nýtingu úrgangs og afgangsorku sem til fellur á svæðinu.

Norðurál er stærsta fyrirtækið á Grundartanga en þar starfa tæplega 600 manns, fyrirtækið er eftirsóttur vinnustaður með fjölbreytt störf, bæði meira og minna sérhæfð. Elkem, járnblendiverksmiðjan á Grundartanga er með rúmlega 200 manns í vinnu en þar er framleitt hágæða málmblendi og áhersla lögð á að mæta kröfum viðskiptavina. GT tækni sinnir margskonar þjónustu og framleiðslu en þar vinna um 80 manns, gámaflutningafyrirtækið Klafi ehf., fóðurverksmiðja Líflands, Vélsmiðjurnar Héðinn og Hamar eru á svæðinu svo eitthvað sé nefnt af þeim fjölda fyrirtækja sem þar eru og sinna margvíslegum og mikilvægum verkefnum.

Hvalstöðin í Hvalfirði, hvalskurðar- og vinnslustöð, var reist árið 1948 og þó hvalveiðar legðust af í tvo áratugi var Hvalstöðinni og öllum húsakosti henni viðkomandi, m.a. bryggju og bröggum frá stríðsárunum, vel við haldið af Kristjáni Loftssyni og fjölskyldu. Um er að ræða mikilvægar og heillegar minjar um atvinnusögu Hvalfjarðar en þarna störfuðu þegar mest var um 100 manns.

Hvalfjarðarsveit rekur stjórnsýsluskrifstofu í Melahverfi, þar sem Heilbrigðiseftirlit Vesturlands hefur jafnframt aðsetur, auk þess sem sveitarfélagið rekur grunn- og leikskóla, íþróttamiðstöð, sundlaug, félagsheimili og fleira tengt grunnþjónustu við íbúa.

Hvalfjarðarsveit er öflugt og blómlegt samfélag þar sem landbúnaður, iðnaður og ferðaþjónusta spila saman við stórbrotna náttúru og ríka sögu.