Fara í efni

Ný umferðarlög taka gildi um áramótin

Nú um áramótin taka gildi ný umferðarlög sem samþykkt voru á Alþingi í júní sl. Ýmsar breytingar fylgja þessum nýju lögum sem mikilvægt er að almenningur hafi góða yfirsýn yfir enda varða umferðarlög alla vegfarendur á Íslandi.

 Í því skyni að kynna breytingarnar hefur Samgöngustofa tekið saman þær allra helstu og sett fram með aðgengilegum hætti á einum stað á vefsíðu sinni.

 Meðal breytinga á umferðarlögum sem varðar sveitarfélög og umferðaröryggi almennt í landinu má nefna:

  • Umferðarfræðsla skal fara fram á öllum skólastigum: Í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum.
  • Skylda barna til að nota hlífðarhjálm við hjólreiðar er færð í lög og nær nú til barna yngri en 16 ára í stað barna yngri en 15 ára.
  • Hjólreiðamaður má hjóla yfir gangbraut (á gönguhraða).
  • Létt bifhjól eru nú skráningar- og skoðunarskyld.
  • Bann við notkun snjalltækja við akstur ökutækja – einnig reiðhjóla – er gert skýrt.
  • Svipta skal þann sem ekið hefur ökutæki án þess að hafa fengið til þess réttindi, réttinum til að öðlast ökuskírteini í fjóra mánuði og framlengja í fjóra mánuði fyrir hvert skipti sem ekið er án réttinda. Ef svipta þarf þann sem ekki hefur náð tilskildum aldri til að aka ökutæki, skal miða við þann dag sem hann nær tilskildum aldri.
  • Tekinn hefur verið af allur vafi um ökuljós bifreiða. Þau skulu ávallt vera kveikt, óháð aðstæðum.
  • Búið er að lækka hraðann í vistgötu niður í 10 km á klst.
  • Hugtakið göngugata er skilgreint í lögunum og sérstakt ákvæði sett um reglur sem gilda skulu í göngugötum. Þannig er umferð vélknúinna ökutækja í göngugötum almennt óheimil með ákveðnum undanþágum.
  • Einungis rafbílar mega leggja í stæði sem merkt er bifreiðum til rafhleðslu.
  • Í lögunum er sérstaklega áréttað að ekki megi leggja í snúningssvæði í botnlangagötum.
  • Veghaldara verður nú heimilað að takmarka eða banna umferð um stundarsakir á vegi eða svæði þegar mengun er yfir heilsufarsmörkum eða hætta talin á að svo verði. Til grundvallar banni skal liggja fyrir rökstuðningur, studdur mæliniðurstöðum og mengunarspám. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð með nánari ákvæðum um takmarkanir vegna mengunar.
  • Ekki er heimilt að veita undanþágu frá notkun öryggis- og verndarbúnaðar í hópbifreiðum í almenningsakstri í dreifbýli á vegum þar sem heimilt er að aka hraðar en 80 km á klst.

Ný umferðarlög

Umferðarlög nr. 77/2019 taka gildi þann 1. janúar 2020. Hér að neðan er samantekt á helstu nýmælum laganna, skipt eftir flokkum.

Bifreiðar 

Hjólreiðar

Ökunám og ökukennsla

Fræðsla í skólum