Njóttu kyrrðarinnar í Hvalfjarðarsveit
Kynntu þér nánar hér:
Náttúru- og útivistarperlur, fjölbreytt landslag og fjölda áhugaverðra staða er víða að finna í Hvalfjarðarsveit, bæði sem tengjast sagnfræði og atvinnusögu auk kunnra staða og kennileita sem skáld og rithöfundar hafa fundið stað í verkum sínum enda náttúrufegurðin allmikil víðsvegar.
Hvalfjörður skartar mörgum fallegum gönguleiðum eins og í Botnsdal og Brynjudal, upp að fossinum Glym í Botnsá og Síldarmannagötur er vinsæl gönguleið úr Hvalfirði yfir í Skorradal. Fjallið Þyrill, þar sem fundist hafa sjaldgæfir geislasteinar, er austarlega í Hvalfirði og á Hvalfjarðarströnd er mikið um æðavarp og krækling sem vinsælt er að tína þá mánuði sem óhætt er. Akrafjall og Hafnarfjall eru í Hvalfjarðarsveit en þar eru vinsælar gönguleiðir.
Álfholtsskógur er vinsæll útivistarstaður í umsjón Skógræktarfélags Skilmannahrepps. Skógurinn nær yfir 75 ha. svæði með um 80 tegundir af trjám og runnum og yfir 200.000 plöntur hafa verið gróðursettar þar frá upphafi. Aðgengi að skóginum hefur verið bætt þannig að almenningur geti þar notið útivistar í yndisskógi þar sem markmiðið er að bæta gönguleiðir, auka fjölbreytni, vekja athygli á sérstökum plöntum með merkingum og sérkennum í náttúrunni og útsýni. Yfirlitskort, merkingar stíga og göngukort af gönguleiðum gera gönguferðir um skóginn enn meira aðlaðandi og aðstaða er í skóginum til að setjast niður, hvíla, borða nesti og una sér.
Í Hvalfjarðarsveit má finna sögu- og merkisstaðaskilti sem sveitarfélagið lét setja niður á nokkrum stöðum til fróðleiks þeirra sem leið eiga um svæðið. Skiltin má finna við Hallgrímskirkju í Saurbæ, félagsheimilið Miðgarð, við Leirárkirkju, á Miðsandi á Hvalfjarðarströnd, við Hléseyjarveg og við Laxárbakka. Tilvalið er að koma við á ofangreindum stöðum og njóta þeirra, náttúrunnar og útiveru.
Hvalfjarðarsveit hefur markvisst frá árinu 2020 unnið að gerð göngu- og reiðhjólastíga víðsvegar í sveitarfélaginu. Lagðir hafa verið stígar í Krosslandi, á Innnesi, við Saurbæ frá bílaplani við Hallgrímskirkju og niður til sjávar, meðfram Eiðisvatni frá Melahverfi í átt að Grundartangasvæðinu og áfram verður haldið til framtíðar með metnaðarfulla áætlun stígagerðar í Hvalfjarðarsveit.
Vinavöllur í Melahverfi býður upp á fjölbreytta afþreyingu fyrir alla aldurshópa, svo sem grillaðstöðu, körfuboltavöll, ærslabelg, hengirúm, leiktæki og bekki. Leiksvæði má einnig finna við Hlíðarbæ á Hvalfjarðarströnd í nágrenni við sundlaugina á Hlöðum.
Í Hvalfjarðarsveit má finna kyrrð og náttúrufegurð í einstöku umhverfi. Margvíslegir möguleikar til útivistar og fróðleiks þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort sem áhugi er fyrir rólegri fjörugöngu, ævintýralegri skógarferð eða krefjandi fjallgöngu með stórbrotnu útsýni.