Fara í efni

Nærbuxur, sandalar og tyggjó!

Stóri plokkdagurinn var sunnudaginn 30. apríl sl. Þetta er í sjötta sinn sem dagurinn er haldinn með formlegum hætti á landsvísu og fleiri þúsund manns taka orðið þátt. Hvalfjarðarsveit í samstarfi við Kvenfélagið Lilju og Ungmenna og íþróttafélag Hvalfjarðarsveitar, tók við hvatningunni um að skipuleggja viðburð í sínu nærumhverfi og kvenfélagið og ungmennafélagið tóku boltann á lofti og skipulögðu plokk á tveimur stöðum í Hvalfjarðarsveit.

Kvenfélagið Liljan skipulagði plokk í Botnsdal og Ungmenna- og íþróttafélag Hvalfjarðarsveitar stóð fyrir plokki í Melahverfi. Alls mættu 23 í björtu en svölu veðri. Talsvert rusl fannst á báðum stöðum, sumt nokkuð hefðbundið eins og flöskur, dósir, tyggjó, plast og pappír. En líka óvenjulegri hlutir eins og nærföt, sandalar, kryddstaukar, ruslatunna og hrífa. Sumir voru í keppni um hver tíndi mest á meðan aðrir vönduðu sig við að tína hina smæstu hluti. Í lok góðrar útiveru var boðið upp á kaffi, djús, kleinur og kanilsnúða. Heimsmálin voru rædd í bland við hversdagslegri hluti en allir voru sammála um að dagurinn gekk ljómandi vel.

Fleiri lögðu plokkdeginum lið, þó ekki hafi þeir tekið þátt í formlegri dagskrá. Fjöldi einstaklinga sendi inn skilaboð um að hafa plokkað í sínu nærumhverfi og þá eru nemendur í skólum Hvalfjarðarsveitar einstaklega duglegir við að halda umhverfi sínu hreinu, tína rusl og fræðast um átthagana, náttúruna og umhverfið.

Takk allir sem lögð sitt af mörkum í þágu umhverfisins á Stóra plokkdaginn – sem og aðra daga.