Fara í efni

Nægir útivistarmöguleikar í Hvalfjarðarsveit

Skoðaðu möguleikana hér:

Náttúru- og útivistarperlur, fjölbreytt landslag og fjölda áhugaverðra staða er víða að finna í Hvalfjarðarsveit, bæði sem tengjast sagnfræði og atvinnusögu auk kunnra staða og kennileita sem skáld og rithöfundar hafa fundið stað í verkum sínum enda náttúrufegurðin allmikil víðsvegar.

Hvalfjörður skartar mörgum fallegum gönguleiðum eins og í Botnsdal og Brynjudal, upp að fossinum Glym í Botnsá, hæsta fossi landsins með fallhæðina 198 metrar en ganga að fossinum tekur á bilinu 3-4 klst. Síldarmannagötur er vinsæl gönguleið úr Hvalfirði yfir í Skorradal. Fjallið Þyrill, þar sem fundist hafa sjaldgæfir geislasteinar, er austarlega í Hvalfirði, nærri Hvalstöðinni og á Hvalfjarðarströnd er mikið um æðavarp og krækling sem vinsælt er að tína þá mánuði sem óhætt er. Akrafjall og Hafnarfjall eru í Hvalfjarðarsveit en þar eru vinsælar gönguleiðir.

Hvalfjarðarsveit hefur markvisst frá árinu 2020 unnið að gerð göngu- og reiðhjólastíga víðsvegar í sveitarfélaginu. Lagðir hafa verið stígar í Krosslandi, á Innnesi, við Saurbæ frá bílaplani við Hallgrímskirkju og niður til sjávar, meðfram Eiðisvatni frá Melahverfi í átt að Grundartangasvæðinu og áfram verður haldið til framtíðar með metnaðarfulla áætlun stígagerðar í Hvalfjarðarsveit.

Vinavöllur í Melahverfi var tekinn í notkun árið 2023 að loknu þriggja ára hönnunar- og framkvæmdaferli. Vinavöllur hefur frá upphafi verið vinsæll og með hækkandi sól fjölgar sífellt gestum sem heimsækja svæðið. Vinavöllur býður upp á fjölbreytta afþreyingu fyrir alla aldurshópa, svo sem grillaðstöðu, körfuboltavöll, ærslabelg, hengirúm, leiktæki og bekki. Nýverið var unnið að endurbótum og lagfæringum á leiksvæðinu við Hlíðarbæ og á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir að unnið verði að skipulagningu opins útivistarsvæðis í Krosslandi og auka þannig enn frekar við fjölbreytta útivistarmöguleika í sveitarfélaginu.

Álfholtsskógur er vinsæll útivistarstaður í umsjón Skógræktarfélags Skilmannahrepps. Skógurinn nær yfir 75 ha. svæði með um 80 tegundir af trjám og runnum og yfir 200.000 plöntur hafa verið gróðursettar þar frá upphafi. Aðgengi að skóginum hefur verið bætt þannig að almenningur geti þar notið útivistar í yndisskógi þar sem markmiðið er að bæta gönguleiðir, auka fjölbreytni, vekja athygli á sérstökum plöntum með merkingum og sérkennum í náttúrunni og útsýni. Yfirlitskort, merkingar stíga og göngukort af gönguleiðum gera gönguferðir um skóginn enn meira aðlaðandi og aðstaða er í skóginum til að setjast niður, hvíla, borða nesti og una sér.

Í Hvalfjarðarsveit má finna sögu- og merkisstaðaskilti sem sveitarfélagið setti niður á nokkrum stöðum í sveitarfélaginu til fróðleiks þeirra sem leið eiga um svæðið. Skiltin má finna við Hallgrímskirkju í Saurbæ, félagsheimilið Miðgarð, við Leirárkirkju, á Miðsandi á Hvalfjarðarströnd, við Hléseyjarveg og við Laxárbakka. Tilvalið er að koma við á þessum stöðum og njóta þeirra, náttúrunnar og útiveru.

Hvalfjarðarsveit er sannkölluð paradís fyrir útivistarfólk, þar sem kyrrð og náttúrufegurð mætast á einstakan hátt. Í Hvalfjarðarsveit má finna fjölbreyttar gönguleiðir víðsvegar um sveitarfélagið og fyrir fjölskyldur og yngstu útivistargestina býður Vinavöllur í Melahverfi upp á skemmtilegan og fjölbreyttan leikvöll. Í Hvalfjarðarsveit ættu allir að geta fundið útivistarmöguleika við sitt hæfi.