Fara í efni

Metnaðarfullt skólastarf í Hvalfjarðarsveit

Kynntu þér skólastarfið nánar hér:

Leik- og grunnskóli Hvalfjarðarsveitar er starfræktur á tveimur stöðum. Leikskólinn Skýjaborg er í Melahverfi og þjónar um 40 börnum á aldrinum 1 – 6 ára. Leikskólinn er opinn frá kl. 7:30-16:30 og þar af eru 5 klst. gjaldfrjálsar, frá kl. 09:00 -14:00 auk 25% afsláttar fæðisgjalda, sjá nánar  í gjaldskrá. Grunnskólinn Heiðarskóli er við Leirá og þjónar um 90 nemendum í 1. – 10. bekk. Í skólanum er teymiskennsla í þremur námshópum, 1. - 4. bekk, 5. - 7. bekk og 8. - 10. bekk, tveir til þrír kennarar eru í hverjum hópi með sameiginlega ábyrgð á námi og velferð nemenda. Að skóladegi loknum, frá kl. 13:30 - 16:30, er rekin Frístund fyrir börn í 1. - 4. bekk, mánudaga til fimmtudaga, sjá gjaldskrá og verklagsreglur. 

Leik- og grunnskóli Hvalfjarðarsveitar er Grænfánaskóli með áherslu á umhverfismennt og útinám þar sem náttúran er nýtt sem kennslutæki og leikefni. Gildi skólans, vellíðan, virðing, metnaður og samvinna eru leiðarljós í skólastarfinu og styðja við heildrænan þroska nemenda. Samstarf milli skólastiga er öflugt og áhersla er lögð á samfellu í námi og vellíðan barna þegar þau flytjast milli skólastiga, t.d. starfar kennari á yngsta stigi grunnskólans einn dag í viku í leikskólanum. Fyrirkomulagið auðveldar börnum aðlögun þegar þau fara úr leikskóla í grunnskóla og styrkir tengsl milli starfsfólks á báðum skólastigum.

Grunnskólaakstur er um alla Hvalfjarðarsveit sem tryggir að nemendur komist örugglega til og frá grunnskóla. Til að auðvelda þátttöku í tómstundum býður sveitarfélagið nemendum jafnframt upp á, í lok skóladags, að fara með skólabíl á Akranes og gera þeim þannig kleift að sækja tómstundastarf eða íþróttaæfingar strax eftir skóla.

Haustið 2011 flutti Heiðarskóli í nýtt húsnæði sem hefur reynst vel og uppfyllt þarfir skólans, einstakt er hve stutt er í ósnortna náttúru sem óspart er nýtt í hin ýmsu verkefni sem tengjast skólastarfinu. Íþróttamiðstöðin Heiðarborg er í göngufæri við skólann og nýtt til sund- og íþróttakennslu ásamt því að vera mikilvæg miðstöð fyrir frístundastarf í sveitarfélaginu. Miklar framkvæmdir standa nú yfir við byggingu nýs íþróttahúss við Heiðarborg þar sem hugsjónin er að til verði „Samfélagsmiðstöð“ sem hýsi skóla-, íþrótta-, frístunda-, félags- og samkomustarf fyrir alla aldurshópa og verði lykilstaður fjölbreytts starfs til framtíðar, öllum til heilla. Hönnun nýs leikskólahúsnæðis í Melahverfi er auk þess hafin með áætlun um rými fyrir 60–68 börn ásamt rúmgóðu útileiksvæði.

Hvalfjarðarsveit tekur þátt í rekstri Tónlistarskólans á Akranesi og þar geta nemendur úr sveitarfélaginu sótt tónlistarnám auk þess sem kennsla fer fram í Heiðarskóla fyrir þá nemendur sem þar eru. Framhaldsskólar á Borgarfjarðarsvæðinu eru tveir, Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi og Menntaskóli Borgarfjarðar í Borgarnesi en auk þess má nefna Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri.

Á sumrin er rekinn vinnuskóli fyrir ungmenni í sveitarfélaginu en markmið með rekstri vinnuskólans er að veita unglingum í sveitarfélaginu sumarvinnu, kenna þeim að vinna og bera virðingu fyrir umhverfinu og náttúrunni.

Hvalfjarðarsveit leggur ríka áherslu á að styðja vel við börn og barnafjölskyldur í sveitarfélaginu og veita gæðaþjónustu. Ný deild, Velferðar- og fræðsludeild, var stofnuð í janúar sl., í því skyni að tryggja samfellda og samþætta þjónustu fyrir íbúa sveitarfélagsins. Með stofnun deildarinnar er stefnt að aukinni skilvirkni, bættri yfirsýn og samþættingu þjónustu sem tengist velferðar-, fræðslu-, íþrótta-, æskulýðs-, menningar- og frístundamálum.

Samhliða innleiðingu farsældarlöggjafarinnar hefur sveitarfélagið hafið innleiðingarferli að Barnvænu sveitarfélagi, þar sem sveitarfélagið skuldbindur sig til að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og vinna markvisst eftir hugmyndafræði verkefnisins.

Með öflugri skóla- og velferðarþjónustu, sterkum innviðum og markvissri uppbyggingu leggur Hvalfjarðarsveit grunn að samfélagi þar sem börn, ungmenni og fjölskyldur geta notið öruggs umhverfis til vaxtar, þroska og vellíðunar.