Fara í efni

Margvísleg uppbygging í Hvalfjarðarsveit

Skoðaðu framtíðina hér:

Ör vöxtur og uppbygging er í Hvalfjarðarsveit þar sem íbúum fjölgar stöðugt, tæplega 6% fjölgun síðastliðið ár, ný hús halda áfram að rísa og skv. talningu HMS sl. haust voru í Hvalfjarðarsveit hlutfallslega flestar íbúðir í byggingu á landsvísu miðað við fjölda fullbúinna íbúða í sveitarfélaginu eða um 20,5%. Söluframboð íbúða og húsa í sveitarfélaginu hefur því verið gott, hvort sem er í Melahverfi, Krosslandi eða á öðrum stöðum í sveitarfélaginu. Upplýsingar um lausar lóðir á vegum sveitarfélagsins má finna hér. 

Miklar framkvæmdir standa nú yfir við byggingu nýs íþróttahúss við Heiðarborg en það er ekki einungis íþróttakennsla grunnskólabarna sem mun njóta nýrrar aðstöðu heldur svo ótal margt fleira sem ný bygging mun færa samfélaginu. Hugsjónin er að með nýju íþróttahúsi verði Heiðarborg samfélagsmiðstöð sem rúmi skóla-, íþrótta, frístunda-, félags- og samkomustarf fyrir alla aldurshópa. Þannig er markmiðið að styðja við og efla þróun íþrótta- og frístundastarfs í sveitarfélaginu og um leið stuðla að almennri lýðheilsu allra íbúa Hvalfjarðarsveitar, t.a.m. með heilsueflingu og styrkingu forvarna. Heiðarborg hýsi og rúmi þannig til framtíðar fjölbreytt og öflugt starf öllum íbúum og gestum sveitarfélagsins til heilla og að þar sjái öll sér hag í að virkja og nýta aðstöðuna þannig að hún blómstri frá fyrsta degi.

Hönnun nýs leikskólahúsnæðis í Melahverfi er hafin með áætlun um rými fyrir 60–68 börn ásamt rúmgóðu útileiksvæði. Stefnt er að upphafi byggingarframkvæmda 2026/2027 eða strax í kjölfar framkvæmdaloka nýs íþróttahúss.

Nýverið var auglýst útboð gatnaframkvæmda í 3. áfanga Melahverfis en um er að ræða gatnagerð fyrsta áfanga sem lokið skal að fullu í árslok 2025. Deiliskipulag svæðisins gerir ráð fyrir fjölbreyttum búsetukostum hvað varðar stærð og gerð íbúðarhúsnæðis og lóðaframboð. Vonir standa til að unnt verði að úthluta lóðum öðru hvoru megin við áramótin 2025/2026 en úthlutun verður auglýst sérstaklega á heimasíðu sveitarfélagsins.

Frá árinu 2020 hefur markvisst verið unnið að gerð göngu- og reiðhjólastíga víðsvegar í sveitarfélaginu. Lagðir hafa verið stígar í Krosslandi, á Innnesi, við Saurbæ, meðfram Eiðisvatni og áfram verður haldið til framtíðar með metnaðarfulla áætlun stígagerðar í Hvalfjarðarsveit.

Vinavöllur í Melahverfi var tekinn í notkun árið 2023 að loknu þriggja ára hönnunar- og framkvæmdaferli. Vinavöllur hefur frá upphafi verið vinsæll og með hækkandi sól fjölgar sífellt gestum sem heimsækja svæðið. Vinavöllur býður upp á fjölbreytta afþreyingu fyrir alla aldurshópa, svo sem grillaðstöðu, körfuboltavöll, ærslabelg, hengirúm, leiktæki og bekki. Nýverið var unnið að endurbótum og lagfæringum á leiksvæðinu við Hlíðarbæ og á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir að unnið verði að skipulagningu opins útivistarsvæðis í Krosslandi og þannig aukið enn frekar við fjölbreytta útivistarmöguleika í sveitarfélaginu.

Í Hvalfjarðarsveit er unnið markvisst að innviðauppbyggingu vaxandi samfélags í takt við fjölgun íbúa þar sem markmiðið er að gera gott enn betra til framtíðar og skapa umhverfi þar sem núverandi og komandi kynslóðir geti blómstrað.