Fara í efni

Lífshlaup Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands

Lífshlaupið, heilsu- og hvatningarverkefni verður ræst í 14. sinn miðvikudaginn 3. febrúar nk.

Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að huga að heilsunni! Við erum vonandi kominn á lokasprettinn í baráttu okkar við COVID-19 en þó er ljóst að baráttan er ekki búin og að við þurfum að halda þetta út aðeins lengur. Það er mikilvægt að láta ekki deigan síga og að halda áfram að huga vel að okkar eigin sóttvörnum. En í öllum þeim höftum og verkefnum sem vírusinn hefur fært okkur má alls ekki gleyma því að huga vel að bæði andlegri og líkamlegri heilsu. Það er meðal annars hægt að gera með því að hreyfa sig reglulega og því er sannarlega tilefni til þess að hvetja fólk til þess að taka þátt í Lífshlaupinu 2021.

Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra landsmanna. Markmið þess er að hvetja landsmenn til þess að fara eftir ráðleggingum Embættis landlæknis um hreyfingu hvort sem er í frítíma, vinnu, skóla eða við val á ferðamáta. Í ráðleggingunum segir að börn og unglingar ættu að hreyfa sig í minnst 60 mínútur daglega og fullorðnir ættu að stunda miðlungserfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega.

Lífshlaupið skiptist í fjóra keppnisflokka:

  • vinnustaðakeppni frá 3. febrúar – 23. febrúar, fyrir 16 ára og eldri (þrjár vikur)
  • framhaldsskólakeppni frá 3. febrúar – 16. febrúar, fyrir 16 ára og eldri (tvær vikur)
  • grunnskólakeppni frá 3. febrúar – 16. febrúar, fyrir 15 ára og yngri (tvær vikur)
  • einstaklingskeppni þar sem hver og einn getur skráð inn sína hreyfingu allt árið

Eins og ávallt hvetjum við alla landsmenn til þess að taka þátt í Lífshlaupinu og skapa skemmtilega stemningu og auka félagsandann á vinnustaðnum/í skólanum.

Skráningarferlið er einfalt og þægilegt en fínar leiðbeiningar má finna hér og undir viðeigandi keppni vinstra megin.

Gaman er að geta fylgst með sinni hreyfingu og jafnframt tekið þátt í þessari skemmtilegu landskeppni. Skrá má alla hreyfingu inn á vefinn svo framarlega sem hún nær ráðleggingum Embættis landlæknis um hreyfingu. Börnum 15 ára og yngri er ráðlagt að hreyfa sig í a.m.k. 60 mínútur á dag og 16 ára og eldri a.m.k. 30 mínútur á dag. Einnig er einfalt að ná í hreyfinguna sína úr Strava.

Nánari upplýsingar um Lífshlaupið má sjá hér: