Fara í efni

Líf í Hvalfjarðarsveit - þemaverkefni á yngsta stigi

Síðastliðinn föstudag komu nemendur af yngsta stigi Heiðarskóla í heimsókn í stjórnsýsluhúsið í Melahverfi. Heimsóknin var hluti af verkefni sem börnin eru og hafa verið að vinna að undanfarið og heitir Líf í Hvalfjarðarsveit. Markmið verkefnisins er að nemendur kynnist sveitarfélagi sínu, sögu þess, helstu kennileitum, stofnunum og daglegu lífi íbúa.

Fulltrúar úr sveitarstjórn og sveitarstjóri tóku á móti nemendum og kynntu fyrir þeim ýmis fundarsköp eins og t.d. með hvaða hætti ákvarðanir eru teknar ef ekki eru allir sammála. Börnin fengu einnig að æfa sig í að koma upp í pontu, leggja fram tillögur og greiða atkvæði. Að lokum var farið með hópinn um stjórnsýsluhúsið, heilsað upp á starfsfólkið þar auk þess sem öllum var boðið upp á ís áður en nemendur héldu aftur í Heiðarskóla.