Íbúafjölgun hlutfallslega mest í Hvalfjarðarsveit
Á vef Þjóðskrár Íslands má finna íbúafjöldatölur í rauntíma og í dag, 13. nóvember 2025, eru íbúar Hvalfjarðarsveitar 845. Þegar litið er til íbúafjölgunar á Vesturlandi frá 1. desember 2024 til 1. nóvember 2025 er hlutfallsleg fjölgun íbúa, hjá sveitarfélögum á Vesturlandi, mest í Hvalfjarðarsveit eða 5,4%.
Íbúafjölda Hvalfjarðarsveitar, ásamt frekari greiningu, má finna í rauntíma á vef Þjóðskrár, sjá hér með því að velja sveitarfélagið.
Hvalfjarðarsveit varð til þann 1. júní 2006 og mun því fagna tveggja tuga afmæli á næsta ári. Við stofnun sveitarfélagsins voru íbúarnir 605 og hefur þeim fjölgað um 240 til dagsins í dag eða um tæp 40% frá stofnun þess.
Á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar má finna ýmiskonar mælaborð, t.a.m. um fjölda íbúða og sumarhúsa eftir árum, sjá hér.
Þegar litið er til þróunar í Hvalfjarðarsveit má sjá að árið 2006 voru 226 íbúðir í sveitarfélaginu og í dag eru þær 401 sem er rúmlega 77% íbúðafjölgun. Hröðust hefur fjölgunin verið sl. 5 ár, frá árinu 2021, eða tæplega 40% og gleðilegt er að bæði er uppbygging í dreifbýli og þéttbýli enda íbúaskipting þannig að 60% íbúa býr í dreifbýli og 40% í þéttbýli. Sumarhúsum hefur einnig fjölgað, jafnt og þétt, úr 459 frá árinu 2006 í 598 eða um rúm 30% og síðustu fimm ár er fjölgunin tæplega 8%.
Samanber ofangreint er vöxtur og vilji til uppbyggingar í Hvalfjarðarsveit sannarlega fyrir hendi og óskandi að svo verði áfram um ókomna tíð.