Fara í efni

Hvalfjarðardagar 2025

Hvalfjarðardagar fóru fram dagana 14.–17. ágúst sl. með fjölbreyttri dagskrá sem spannaði fjóra daga.

Hátíðin hófst á fimmtudagskvöld með litahlaupi Ungmenna- og íþróttafélags Hvalfjarðarsveitar á Vinavelli þar sem þátttakendur böðuðu sig í litum. Um kvöldið tók svo við Pubquiz með Hjálmari Erni á Hámel 8.

Á föstudeginum var boðið upp á fjölskylduvæna dagskrá, meðal annars útileiki fyrir börn á Vinavelli, dj og fatasund í sundlauginni að Hlöðum og síðar um kvöldið var boðið upp á kjötsúpu og brekkusöng á Vinavelli.

Laugardagurinn var þéttskipaður með skemmtilegum viðburðum fyrir alla aldurshópa. Deginum var ýtt úr vör með skemmtiskokki fyrir alla fjölskylduna. Markaður og veglegt kökuhlaðborð var á vegum Kvenfélagsins Lilju í stjórnsýsluhúsi sveitarfélagsins þar sem einnig var sett upp listasýning Skýjaborgar. Á Vinavelli fór fram fjölskyldudagskrá með hoppuköstulum, töfrabrögðum, dansatriði, ásamt því að boðið var upp á pylsur og Benedikt búálfur kíkti í heimsókn. Þar fór einnig fram afhending umhverfisviðurkenninga sveitarfélagsins.
Um kvöldið fóru svo fram vel sóttir tónleikar í Álfholtsskógi með hljómsveitinni GÓSS.

Á sunnudeginum var enn nóg um að vera. Íbúar og gestir gátu tekið þátt í keramikmálun á Leirá, notið fjölskyldudags í sundlauginni að Hlöðum, farið í göngu með Útiverum og sótt opið hús í Vatnaskógi. Hátíðinni lauk svo með gusutíma í sundlauginni að Hlöðum.

Hvalfjarðardagar 2025 voru vel heppnaðir og þakkar Hvalfjarðarsveit öllum sem mættu kærlega fyrir komuna.
Hvalfjarðarsveit vill einnig færa öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum til skipulagningar og framkvæmdar hátíðarinnar hjartans þakkir, sem og þeim fjölmörgu styrktaraðilum sem gerðu Hvalfjarðardaga 2025 að veruleika.

Sérstakar þakkir fá verkefnastjórar Hvalfjarðardaga 2025, þeir Valdimar Ingi Brynjarsson og Hjörvar Gunnarsson, fyrir að skipuleggja og halda utan um hátíðarhöldin með glæsibrag.

Myndir frá Hvalfjarðardögum má sjá hér: