Fara í efni

Hvalfjarðardagar 2022

Hvalfjarðardagar voru haldnir hátíðlegir um helgina í blíðskaparveðri. Dagskrá var fjölbreytt víðsvegar um sveitarfélagið. Á hótel Glym var dögurður, Í Álfholtsskógi voru víkingar að störfum, gönguferðir um skóginn og veitingar. Í Melahverfi var markaðstjald, Lalli töframaður kom í heimsókn, wipeout braut, fótboltaþrautir, krílaleikhorn og dráttarvéla- og bílasýning að ógleymdri grillveislu í boði MS, SS og Krónunnar.

Málverka- og handverkssýning var í stjórnsýsluhúsinu þar sem listakonan Josefina Morell sýndi verk sín og í félagsheimilinu Miðgarði sýndu Skraddaralýs og eldri borgarar handverk og bútasaum úr sveitinni. Sundlaugin að Hlöðum var opin alla helgina sem og Hernámssetrið og á sunnudaginn var gönguferð á slóðum Hallgríms Péturssonar í Saurbæ auk sumartónleika í Hallgrímskirkju.

Ljósmyndakeppni var alla helgina með þemanu „mannlíf í Hvalfjarðarsveit“ og gefur Josefina Morell verðlaun fyrir bestu myndina, einnig var skreytingakeppni þar sem þemað var „fuglahræður“ og gefur Grand hótel verðlaun fyrir flottustu skreytinguna en úrslit beggja keppna verða birt á næstu dögum.

Hvalfjarðarsveit þakkar öllum þeim sem komu og tóku þátt í Hvalfjarðardögum kærlega fyrir komuna í sveitarfélagið sem og öllum styrktaraðilum fyrir þeirra mikilvæga framlag. Sjálfboðaliðum og öllum þeim sem lögðu hönd á plóg eru jafnframt færðar bestu þakkir fyrir þeirra störf.

Hvalfjarðarsveit – þar sem lífið er ljúft.

Myndir frá Hvalfjarðardögum má sjá hér: