Fara í efni

Heill Heiðarskóla sextugum

Nemendur Heiðarskóla flytja Heiðó lagið
Nemendur Heiðarskóla flytja Heiðó lagið

Heiðarskóli fagnaði 60 ára starfsafmæli þann 9. nóvember sl. og var haldið upp á tímamótin með glæsilegri afmælishátíð í Heiðarskóla föstudaginn 7. nóvember sl. þar sem fjöldi gesta fagnaði með nemendum og starfsfólki. Á afmælishátíðinni var m.a. Heiðó lagið flutt af nemendum sem sömdu jafnframt texta við lagið, sannarlega hæfileikaríkir nemendur, auk þess sem sex fyrrverandi nemendur skólans sögðu frá skólagöngu sinni. Að lokinni ljúffengri kjúklingasúpu og afmælisköku í hádeginu tók Emmsjé Gauti nokkur lög við góðar undirtektir gesta.

Heiðarskóli er vissulega afmælisbarn sem eldist vel og hlúð hefur verið að í gegnum árin en það skiptir öllu máli að samfélagið beri hag fyrir mennta- og uppeldisstofnunum sínum þar sem framtíðarauður hvers samfélags verður til, vex og dafnar.

Lykilþáttur í velgengni afmælisbarnsins er ekki síður starfsfólk þess í gegnum tíðina sem lagt hefur allt sitt af mörkum og alið af sér nemendur sem á margskonar vegu gera sig gildandi í þjóðfélaginu og taka þátt í að skapa fjölbreytt samfélag.

Þroskasaga Heiðarskóla hefur verið margbreytileg, eins og vera ber í síbreytilegum heimi þar sem gæta þarf að því að fylgja straumum og stefnum samtímans, hvort sem er í námi, aðstöðu eða aðbúnaði. Þar hefur Heiðarskóla tekist vel til í gegnum árin .

Farsæla sögu Heiðarskóla má þakka djörfung og dug samfélagsins frá stofnun skólans til dagsins í dag og framtíðarsaga skólans mun byggja á sama grunni, samfélaginu sem umvefur skólann, hlúir að honum og nærir. Framtíðin er í höndum okkar allra, saman, gætum þess að afmælisbarnið haldi áfram að vaxa, dafna og eflast og megi þannig fagna mörgum fleiri áratugaafmælum um ókomna tíð. Afmælisbarninu eru nefnilega engin takmörk sett í þeim efnum.

Kæru nemendur og starfsfólk Heiðarskóla, bæði fyrr og nú, innilegar hamingjuóskir með afmælið!