Fara í efni

Gámar og lausamunir - Átak

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti tillögu Umhverfis-, skipulags, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar á fundi sínum 23. september s.l. að farið verði í átak vegna gáma og lausamuna í sveitarfélaginu. Eftir yfirferð starfsmanna Umhverfis- og skipulagsdeildar kom í ljós að gámar skipta hundruðum og lausamunir eru víða.

Umhverfis- og skipulagsdeild fyrirhugar að senda bréf til lóðarhafa þar sem gámar og/eða lausamunir eru og þeim gefinn kostur á að fjarlægja innan tilsetts tíma, eða sækja um stöðuleyfi eða önnur leyfi, eftir því sem við á. Það er mikilvægt að sveitarfélagið hafi yfirlit yfir gáma og lausafjármuni, eigendur þeirra og ábyrgðaraðila.

Í grein 2.6.1 í byggingarreglugerð segir:
Sækja skal um stöðuleyfi til leyfisveitanda til að láta eftirfarandi lausafjármuni standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega eru skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna:

  • Hjólhýsi, á tímabilinu frá 1. október til 1. maí.
  • Gáma, báta, torgsöluhús, frístundahús í smíðum, sem ætlað er til flutnings, og stór samkomutjöld.

Umsókn um stöðuleyfi skal vera:

  • skrifleg og undirrituð af eiganda eða ábyrgðarmanni viðkomandi hlutar og skal fylgja samþykki eiganda eða lóðarhafa þeirrar lóðar sem fyrirhugað er að lausafjármunirnir standi á.
  • gerð grein fyrir tilgangi og tímalengd stöðuleyfis.
  • Með umsókn skulu fylgja uppdrættir og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að sýna staðsetningu, útlit og gerð, fyrirkomulag og öryggi lausafjármunanna.

Stöðuleyfi skulu mest veitt til 12 mánaða nema ákvæði skipulags mæli fyrir um annað.“

Það athugist að þótt lóðarhafi sæki um stöðuleyfi felur það ekki í sér fyrirheit um samþykki umsóknar.
Komi til umsóknar verður tekin afstaða til hennar á grundvelli m.a., skipulags, laga og reglna.

Við hvetjum alla eigendur og eða forráðamenn gáma og lausamuna til að bregðast við kalli Umhverfis- og skipulagsdeildar um að fjarlægja eða sækja um leyfi eftir því sem við á.

Umhverfis- og skipulagsdeild Hvalfjarðarsveitar