Fyrsta barnaþing Hvalfjarðarsveitar haldið í Heiðarskóla
Miðvikudaginn 23. apríl fór fram fyrsta barnaþing Hvalfjarðarsveitar í Heiðarskóla. Þingið er liður í því ferli að gera sveitarfélagið að barnvænu samfélagi samkvæmt viðmiðum UNICEF.
Nemendur í 5. til 10. bekk í Heiðarskóla tóku þátt í þinginu, sem var skipulagt í formi málstofa og umræðna þar sem börnin fengu tækifæri til að ræða málefni sem þeim eru hugleikin. Þau unnu saman að veggspjöldum, tóku virkan þátt í umræðum og kynntu niðurstöður sínar.
Áhersla var lögð á að skoða hvernig bæta mætti samfélagið og nærumhverfið út frá sjónarhorni barnanna. Meðal umræðuefna voru geðheilsa og aðgengi að aðstoð, tómstundir og skemmtanir, vellíðan í skólanum, tækninotkun og skjátími, öryggi í nærumhverfinu, umhverfismál, samgöngur, réttindi barna og þátttaka í ákvarðanatöku. Einnig voru börnin hvött til að koma með nýjar hugmyndir.
Ungmennaráð Hvalfjarðarsveitar kom að undirbúningi þingsins og naut sveitarfélagið einnig aðstoðar frá ráðgjafarfyrirtækinu RATA við skipulagningu og utanumhald. Alls tóku um 50 börn þátt í viðburðinum.
Barnaþingið heppnaðist afar vel og börnin sýndu bæði metnað og sköpunargleði. Hugmyndir þeirra og tillögur endurspegluðu vilja þeirra til að hafa áhrif á samfélagið sitt. Lögð var rík áhersla á að hlusta á raddir barnanna, en virkt lýðræðislegt samtal og þátttaka barna í málum sem snerta líf þeirra er hornsteinn barnvæns samfélags.
Sjá myndir hér: Barnaþing 2025 | Hvalfjarðarsveit