Frístundastyrkur hækkar í 80.000 kr. frá 1. janúar nk.
Frá og með 1. janúar 2026 mun árlegur tómstundastyrkur hækka í kr. 80.000 hjá Hvalfjarðarsveit. Sveitarfélagið styrkir börn og ungmenni, með lögheimili í Hvalfjarðarsveit, frá fæðingu að 18 ára aldri til íþrótta- og tómstundaiðkunar.
Að auki eru veittir styrkir til keppnisferða erlendis og sérstakur styrkur til tekjulágra heimila, sjá nánar í Reglum um íþrótta- og
tómstundastyrki Hvalfjarðarsveitar.
Hvalfjarðarsveit vill með styrkveitingum hvetja börn og ungmenni til þátttöku í hverskonar íþrótta- og tómstundastarfi. Styrkirnir eru jafnframt ætlaðir til að mæta útlögðum kostnaði vegna æfinga og keppna.
Hvalfjarðarsveit veitir einnig styrki úr Afrekssjóði Hvalfjarðarsveitar til stuðnings afreksfólki sem á lögheimili í sveitarfélaginu.
Að lokum er minnt á að sækja þarf um tómstundastyrk vegna ársins 2025 fyrir 31. desember nk. en styrkurinn er kr. 70.000 árið 2025.