Fara í efni

Framkvæmdafréttir

Heiðarveita:

Framkvæmdir við lagningu hitaveitu, Heiðarveitu, í Leirársveit hófust um miðjan apríl 2022 og hefur jarðvinnuverktaki lokið sínu verki samkvæmt verksamningi. Fjölmargir þeirra notenda sem óskuðu eftir tengingu inn á veituna hafa nú þegar tengst henni á meðan aðrir eru skemmra á veg komnir og því ljóst að notendum mun halda áfram að fjölga eftir því sem líður á árið. Framkvæmdir við veituna hafa fram að þessu gengið vel.

 

 

 

 

 

 

 

Göngustígagerð:

Lokið er öðrum áfanga göngustígagerðar að Eiðisvatni en í þessum áfanga var lagður 550 metra langur stígur til viðbótar við 420 metra stíg sem fyrir var þannig að nú er unnt að njóta þess að ganga tæpan kílómetra frá Melahverfi niður og meðfram Eiðisvatni. Í sumar munu jafnframt verða settir tveir bekkir á gönguleiðinni til áningar en leiðin á tveggja metra breiðum stígnum er auðfarin.

 

 

 

 

 

 

 

Krossland:

Í Krosslandi er stígatengingum innan hverfisins að mestu leyti lokið auk gangstéttagerðar, götu- og umferðamerkinga ásamt því að göngustígurinn frá Krosslandi hefur verið tengdur við göngustíg á landamerkjum Hvalfjarðarsveitar við Akraneskaupstað.
Uppbygging í Krosslandi heldur áfram líkt og fyrri ár en þar eru nú í byggingu nokkur hús.

 

 

 

 

 

 

 

Melahverfi:

Framkvæmdir við útivistarsvæðið í Melahverfi eru langt á veg komnar og þessa dagana er vinna við svæðið í fullum gangi. Verið er að helluleggja, koma fyrir leiktækjum, grillaðstöðu, körfuboltavelli og fleira en áætlað er að framkvæmdum verði lokið eigi síðar en 15. júní nk. eða fyrir Hvalfjarðardaga sem haldnir verða hátíðlegir helgina 23.-25. júní nk.
Í Melahverfi er, eins og í Krosslandi, áframhaldandi uppbygging þar sem fjöldi húsa er nú þegar í byggingu eða á teikniborðinu.

 

 

 

 

 

Hvalfjarðarsveit þakkar verktökum, sem og öllum öðrum þeim, er að ofangreindum framkvæmdum hafa komið, fyrir samstarfið.