Fara í efni

Frá sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar vegna fyrirhugaðra verndartolla ESB á kísiljárn og tengdar vörur frá Íslandi.

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar lýsir yfir þungum áhyggjum vegna fyrirhugaðra verndartolla Evrópusambandsins á kísiljárn og tengdar vörur frá Íslandi. Ef af verður yrði það mjög alvarlegt högg fyrir iðnaðarsvæðið á Grundartanga í Hvalfjarðarsveit þar sem nú er unnið að gerð græns hringrásariðngarðs með framsæknum nýsköpunarverkefnum í betri nýtingu orku- og efnisstrauma innan svæðisins. Að auki yrði sett í uppnám öll sú mikilvæga uppbygging og fjárfesting nýrra fyrirtækja sem unnið hefur verið að í langan tíma á svæðinu.

Hjá Elkem á Grundartanga starfa tæplega 200 manns, auk fjölda óbeinna starfa sem reksturinn skapar. Verði þessi áform að veruleika munu þau ekki einungis hafa alvarleg áhrif á atvinnu og afkomu fjölmargra fjölskyldna í Hvalfjarðarsveit heldur einnig nærliggjandi svæða sem og þjóðarbúsins alls.

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar skorar á íslensk stjórnvöld að leggja allt kapp í að afstýra fyrirhuguðum áformum og ná samkomulagi við ESB.