Fara í efni

Fjórða tunnan á leiðinni til íbúa!

Eins og fram hefur komið í kynningar- og fréttatengdu efni frá Hvalfjarðarsveit, verður innleitt svokallað fjögurra tunnu kerfi í sveitarfélaginu á þessu ári. Ný lög tóku gildi 1. janúar sl. og eru þau grunnurinn að þessum breytingum.

Samhliða næstu losun á svokallaðri grænu tunnu (endurvinnslutunnunni sem nú er í notkun), verður nýrri 240 lítra tunnu undir plastefni keyrt á öll heimili í sveitarfélaginu, svo fremi sem aðstæður (veður og færð) leyfa. Þann 23. og 24. febrúar nk. fer fram losun á endurvinnslutunnunni og afhending á nýrri tunnu á eftirtöldum svæðum: Hvalfjörður, Svínadalur, Melahverfi og svæðið norðan Akrafjalls. Þann 16. og 17. mars fer fram losun og afhending á Innnesi, sunnan Akrafjalls, meðfram þjóðvegi 1 og í Melasveit.

Tunnan sem nú er notuð fyrir plast, pappa og málma verður merkt að nýju og verður í framhaldinu eingöngu nýtt fyrir pappír og pappa. Nýja tunnan verður eingöngu fyrir plastefni. Brúna tunnan verður eins og áður fyrir lífrænan úrgang og fjórða tunnan er fyrir óflokkaðan úrgang og er markmiðið að sem minnst fari í þá tunnu.

Samhliða verður komið upp nýjum gámi við grenndarstöðina við Melahverfi, þar sem hægt verður að losa úrgangsefnin: málma, gler og textíl. Þessir gámar eru á leiðinni til landsins og verður send út tilkynning þegar þessi gámaeining verður komin í gagnið.

Allar nánari upplýsingar veitir umhverfisfulltrúi Hvalfjarðarsveitar en viðtals- og viðverutími hans er þriðjudaga og miðvikudaga milli kl. 10 og 15. Einnig er hægt að senda póst á: umhverfi@hvalfjardarsveit.is og þá er hægt að panta viðtalstíma utan fastra viðverutíma.

Dreifibréf um úrgangsmál

Fréttabréf sveitarstjórnar - febrúar 2023