Fara í efni

Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar 2026 - 2029

Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar fyrir árið 2026 ásamt þriggja ára áætlun 2027-2029 var samþykkt á fundi sveitarstjórnar þann 26. nóvember sl.

Um er að ræða áætlun til næstu fjögurra ára sem endurspeglar þjónustu- og innviðauppbyggingu með tilliti til framtíðarþarfa í ört vaxandi sveitarfélagi þar sem íbúafjölgun sl. 5 ár er rúmlega 35%. Viðhaldið er góðu þjónustustigi við íbúa, hugað að eðlilegu og nauðsynlegu viðhaldi eigna auk nýframkvæmda.

Áætlunin byggir á sömu forsendum og áður, þ.e. tekjuáætlunin er varfærin, útgjaldaáætlunin raunsæ og þess er gætt að framtíðarskuldbindingar raski ekki forsendum í rekstri og afkomu sveitarfélagsins til lengri tíma.

Forsendur fjárhagsáætlunar:

Í áætluninni er stuðst við upplýsingar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og útsvarsáætlun þeirra auk Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands vegna þróunar verðlags fyrir komandi ár. Aðrar forsendur sem horft er til er útkomuspá yfirstandandi árs og átta mánaða árshlutauppgjör ársins.

Launaáætlun var unnin út frá raunforsendum á öllum deildum og yfirfór forstöðufólk áætlanirnar. Stuðst var við gildandi kjarasamninga sem og Þjóðhagsspá Hagstofunnar um hækkun launavísitölu. Það er einnig, eins og áður, gert ráð fyrir tilfallandi veikindum, ekki langtímaveikindum.

Almenn nefndarlaun eru í flestum tilfellum áætluð 11 mánuði ársins, þ.e. ekki er gert ráð fyrir fundum á sumarleyfistíma, í júlí.

Útsvar:

Álagningarhlutfall útsvars árið 2026 verður óbreytt frá fyrra ári eða 14,14%.

Stuðst var við staðgreiðsluáætlun Sambands íslenskra sveitarfélaga við áætlun útsvarstekna en hún gerir ráð fyrir 6,6% meðaltalshækkun útsvarsstofns á landsvísu milli áranna 2025 og 2026.

Jöfnunarsjóðsframlag:

Framlög úr Jöfnunarsjóði er áætlað skv. upplýsingum frá sjóðnum.

Fasteignaskattur og lóðarleiga:

Álagningarhlutföll fasteignaskatts árið 2026 verða eftirfarandi:

  • A-flokkur 0,34%
  • B-flokkur 1,32%
  • C-flokkur 1,65%

Fasteignaskattur er áætlaður út frá fasteignamati komandi árs sem hækkar milli ára en til að vega á móti hækkuninni var álagningarhlutfall í A-flokki lækkað úr 0,36% í 0,34%.

Lóðarleiga lækkar úr 1,0% í 0,8% árið 2026, til að vega á móti hækkun lóðahlutamats.

Fasteignagjöld og aðrar gjaldskrár:

Ný gjaldskrá hefur verið samþykkt fyrir gatnagerðargjald en aðrar gjaldskrár sveitarfélagsins, s.s. úrgangs, rotþróa, ljósleiðara, hundahalds, frístundar og leikskóla eru vísitölubundnar og hækka skv. því um komandi áramót.

Þjónustugjöldum er almennt ætlað að standa undir raunkostnaði við málaflokka.

Rekstur:

Rýnt var vel í reksturinn og forstöðufólk, í samstarfi við viðkomandi fagnefndir, fóru vel yfir alla kostnaðarliði m.t.t. raunþróunar þeirra auk þess sem einskiptisliðir yfirstandandi árs voru teknir út og nýir liðir settir inn fyrir komandi ár.

Viðhald:

Árið 2026 eru áætlaðar samtals 58,2mkr. til viðhalds eigna sveitarfélagsins, hæsta fjárhæð til viðhalds í eignasjóði er áætluð til Heiðarskóla, 11,5mkr., til Skýjaborgar eru áætlaðar 6,7mkr., til Hitaveitu 6,2mkr., til stjórnsýsluhúss 4,4mkr., til sundlaugarinnar á Hlöðum 3,8mkr., til félagsheimilisins Miðgarðs 3,6mkr., til Heiðarborgar 3,3mkr., og lægri fjárhæðir til annarra eigna en líkt og áður er þess gætt að vel sé hlúð að öllum eignum í takt við þarfir hverju sinni.

Fjárfesting/framkvæmdir:

Framkvæmdaáætlun næsta árs gerir ráð fyrir samtals 788mkr. til fjárfestinga. Stærsta einstaka fjárfestingin er áframhaldandi bygging nýs íþróttahúss við Heiðarborg, sem taka á í notkun haustið 2026, en 556mkr. eru á framkvæmdaáætlun næsta árs til verkefnisins. Ráðgerðar eru 105mkr. til áframhaldandi undirbúnings og framkvæmda við nýtt leikskólahúsnæði, 58mkr. til áframhaldandi gatnagerðar í Melahverfi, 3. áfanga, til áframhaldandi göngu- og reiðhjólastígagerðar 18mkr. og 20mkr. til opins svæðis í Krosslandi auk 21mkr. til kaupa á dælubifreið fyrir slökkvilið ásamt 10mkr. framlagi til fjárfestinga Vatnsveitufélags Hvalfjarðarsveitar.

Árið 2027 er gert ráð fyrir 568mkr. til fjárfestinga, árið 2028 eru 393mkr. og árið 2029 eru áætlaðar 98mkr.

Á næstu fjórum árum eru því ráðgerðir samtals tæpir 1,9 milljarður til framkvæmda í Hvalfjarðarsveit, til nýs íþróttahúss, hönnunar og framkvæmda við nýtt leikskólahúsnæði, áframhaldandi gatnagerð og göngu- og reiðhjólastígagerð, gerð opins svæðis í Krosslandi ásamt hlutdeild í kaupum dælubíls slökkviliðs og hlutdeild í vatnsveituframkvæmdum.


Lántaka:

Ekki er gert ráð fyrir lántöku í áætluninni.

Niðurstaða fjárhagsáætlunar 2026:

  • Heildartekjur samstæðu A og B hluta á árinu 2026 eru áætlaðar 1.827,9mkr. Heildargjöld eru áætluð 1.764mkr. Þar af eru launagjöld 843mkr., annar rekstrarkostnaður 835,1mkr. og afskriftir 85,9mkr.
  • Heildartekjur í A-hluta eru áætlaðar 1.811,7mkr. og heildarútgjöld eru áætluð 1.725,6mkr. Þar af eru laun og launatengd gjöld 843mkr., annar rekstrarkostnaður 801,7mkr. og afskriftir 80,9mkr.
  • Fjármunatekjur eru áætlaðar 87mkr., bæði í A og B hluta og í A hluta.
  • Rekstrarafgangur A og B hluta er áætlaður 150,9mkr. og í A-hluta 150mkr.
  • Skuldir og skuldbindingar A og B hluta í árslok 2026 eru áætlaðar 158,6mkr. og 172,3mkr. í A-hluta.
  • Eigið fé A og B hluta er áætlað 5.318,1mkr. og A hluta 5.306mkr.
  • Veltufé frá rekstri árið 2026 í A og B hluta er áætlað 237,2mkr. en 231,3mkr. ef einungis er litið til A hluta.
  • Fjárfesting í A og B hluta, skv. fjárfestingaáætlun er 788mkr. árið 2026.
  • Afborganir langtímalána eru engar og ekki er gert ráð fyrir að taka ný langtímalán á áætlunartímabilinu.
  • Áætlað er að í árslok 2026 verði handbært fé um 903,6mkr.

Forsendur fjárhagsáætlunar fyrir árin 2027 – 2029:
Grunnforsenda fyrir fjárhagsáætlun 2027-2029 er áætlun um fjárheimildir fyrir árið 2026 að teknu tilliti til framtíðarfjárfestinga, s.s. gatnagerðar, byggingu og rekstri nýs íþróttahúss og leikskóla. Áætlunin tekur mið af kostnaðarverðlagi ársins 2026. Kostnaðarliðir aðrir en laun breytast í takt við spá um breytingu neysluverðsvísitölu. Útsvarstekjur breytast á milli ára í takt við launavísitölu eins og hún er áætluð í Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands auk spár um íbúaþróun. Gert er ráð fyrir að launa- kostnaður breytist í takt við spá um þróun launavísitölu í Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands.

Helstu lykiltölur úr rekstri og efnahag árin 2027-2029, samantekið A og B hluti:

  • Rekstrarafkoma á tímabilinu verður jákvæð öll árin á bilinu 143,8-239,2mkr. eða uppsafnað á tímabilinu 551,3mkr.
  • Veltufé frá rekstri verður á bilinu 246,4-355mkr. á ári eða á bilinu 12,8-16,6% af rekstrartekjum, hæst 16,6% árið 2029 og lægst 12,8% árið 2027.
  • Veltufjárhlutfall er áætlað 5,62 árið 2027, 5,18 árið 2028 og 6,94 árið 2029.

Skuldahlutfall er áætlað 8,5% árið 2027 og 8% árin 2028 og 2029.

Lokaorð:

Það er afar ánægjulegt að fjárhagsáætlun komandi árs, 2026, sem er stórafmælisár Hvalfjarðarsveitar, beri skýr merki um áframhaldandi vöxt og innviðauppbyggingu. Hvað er betri afmælisgjöf en íbúa- og íbúðafjölgun sem unnt er að hlúa að með góðu móti með styrkri þjónustu og innviðaumgjörð íbúum þess til farsældar og heilla. Það er gæfa næsta árs þegar sveitarfélagið mun fagna 20 árum frá stofnun þess sem og að geta klárað og farið í stórar framkvæmdir líkt og nýtt íþróttahús, nýjan leikskóla og gatnagerð án fyrirhugaðrar lántöku og skuldsetningar sveitarfélagsins.

Sveitarstjóri færir starfsfólki á skrifstofu Hvalfjarðarsveitar, forstöðufólki öllu sem og sveitarstjórn þakklæti sitt fyrir þeirra mikilvæga framlag, aðkomu og vinnu við gerð fjárhagsáætlunarinnar.

Hvalfjarðarsveit 27. nóvember 2025
Linda Björk Pálsdóttir, sveitarstjóri

Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar 2026-2029 má sjá hér