Fara í efni

Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar 2021-2024

Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar fyrir árið 2021 ásamt þriggja ára áætlun 2022-2024 var samþykkt á fundi sveitarstjórnar þann 24. nóvember sl.

Um er að ræða áætlun til næstu fjögurra ára þar sem áfram er haldið á sömu braut að hlúa að góðri þjónustu við íbúa, viðhaldi eigna auk uppbyggingar til framtíðar, m.a. með áframhaldandi gatnagerð í Melahverfi til úthlutunar nýrra lóða, gerð opins svæðis í Melahverfi og áframhaldandi göngu- og reiðhjólastígagerð auk undirbúnings vegna fyrirhugaðrar byggingar nýs íþróttahúss.

Við áætlunargerðina er, eins og áður, lögð áhersla á að tekjuáætlun sé varfærin, útgjaldaáætlun raunsæ og að ekki sé gengist undir skuldbindingar sem raskað geti forsendum í rekstri og afkomu sveitarfélagsins til lengri tíma.

Forsendur fjárhagsáætlunar:

Í áætluninni er stuðst við upplýsingar frá Hag- og upplýsingasviði Sambands íslenskra sveitarfélaga og útsvarsáætlun þeirra auk Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands vegna þróunar verðlags fyrir komandi ár.  Aðrar forsendur sem sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar horfir til eru útkomuspá yfirstandandi árs og átta mánaða árshlutauppgjör ársins.

Launaáætlun var unnin út frá óbreyttum stöðugildafjölda á öllum deildum m.v. stöðuna nú í haust og yfirfóru forstöðumenn áætlanirnar.  Kjarasamningar allra stétta liggja fyrir og voru launahækkanir skv. þeim settar inn og eins og áður er gert ráð fyrir tilfallandi veikindum en engum langtímaveikindum.      

Útsvar:

Álagning útsvars árið 2021 verður 13,69% eða óbreytt frá fyrra ári.

Stuðst er við staðgreiðsluáætlun Sambands íslenskra sveitarfélaga við áætlun útsvarstekna.

Fasteignaskattur og lóðarleiga:

Álagningarhlutföll fasteignaskatts árið 2021 verða óbreytt frá fyrra ári og eru þau eftirfarandi:

  • A-flokkur 0,40%
  • B-flokkur 1,32%
  • C-flokkur 1,65%

Lóðarleiga verður einnig óbreytt eða 1,0%.

Fasteignagjöld:

Gjaldskrár sorphirðu og rotþróa eru vísitölubundnar og hækkar skv. því í janúar ár hvert.

Aðrar tekjur:

Gjaldskrár þjónustugjalda eru flestar vísitölubundnar og hækka sbr. það nk. áramót.

Hvalfjarðarsveit hefur tekið til sín málefni fatlaðra og vegna þess er gert ráð fyrir framlagi vegna málaflokksins frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á komandi ári.

Rekstur:

Almenn hækkun rekstrarkostnaðar er í takt við verðbólguspá Hagstofunnar fyrir komandi ár.  Forstöðumenn fóru auk þess vel yfir alla kostnaðarliði m.t.t. raunþróunar þeirra auk þess sem einskiptisliðir yfirstandandi árs voru teknir út og nýjir settir inn. 

Viðhald:

Árið 2021 er gert ráð fyrir 53,5mkr. til viðhalds eigna, hæsta fjárhæðin tæpar 15mkr. er til Miðgarðs, 8,6mkr. eru til Heiðarskóla, 4,1mkr. til Stjórnsýsluhúss, tæpar 3,8mkr. til Skýjaborgar, 3,4mkr. til Heiðarborgar og 3,2mkr. til sundlaugarinnar á Hlöðum.  Aðrar eignir eru með lægri fjárhæðir til viðhaldsframkvæmda.

Fjárfesting/framkvæmdir:

Árið 2021 eru áætlaðar 173mkr. til framkvæmda, þ.a. eru 78mkr. til gatnagerðar Háamels, vesturs, í Melahverfi, 32mkr. til undirbúnings byggingar nýs íþrótthúss, 15mkr. til göngu- og reiðhjólastíga, 15mkr. til hönnunar og framkvæmda við Opið svæði í Melahverfi, 10mkr. til hitaveitu auk 23mkr. vegna Vatnsveitufélags Hvalfjarðarsveitar.  Árið 2022 er gert ráð fyrir 308mkr. til framkvæmda, þ.a. 270mkr. vegna byggingar nýs íþróttahúss, 15mkr. til göngu- og reiðhjólastíga og 23mkr. til Vatnsveitufélags Hvalfjarðarsveitar.

Lántaka:

Engin lántaka er í áætluninni. 

Niðurstaða fjárhagsáætlunar 2021:

  • Heildartekjur samstæðu A og B hluta á árinu 2021 eru áætlaðar 1.027,9mkr. Heildargjöld eru áætluð 992,3mkr.  Þar af eru launagjöld 509,8mkr., annar rekstrarkostnaður 439,1mkr. og afskriftir 43,4mkr.
  • Heildartekjur í A-hluta eru áætlaðar 1.016,7mkr. og heildarútgjöld eru áætluð 981,1mkr. Þar af eru laun og launatengd gjöld 509,8mkr., annar rekstrarkostnaður 430,9mkr. og afskriftir 40,4mkr.
  • Fjármunatekjur A og B hluta og A hluta eru áætluð sama fjárhæð eða 8,6mkr.
  • Rekstrarafgangur A og B hluta er áætlaður 47,2mkr. sem er sama og A-hluta.
  • Skuldir og skuldbindingar A og B hluta í árslok 2021 eru áætlaðar 120mkr. og sama fjárhæð er áætluð í A-hluta.
  • Eigið fé A og B hluta er áætlað 3.333,8mkr. og A hluta 3.313,1mkr.
  • Veltufé frá rekstri árið 2021 í A og B hluta er áætlað 87,5mkr. en 84,6mkr. ef einungis er litið til A hluta.
  • Fjárfesting í A og B hluta er áætluð 173mkr. árið 2021.
  • Afborganir langtímalána eru 0 kr. þar sem lánin eru greidd upp á yfirstandandi ári og ekki er gert ráð fyrir að taka ný langtímalán á áætlunartímabilinu.
  • Áætlað er að í árslok 2021 verði handbært fé um 1.031,2mkr.


Forsendur fjárhagsáætlunar fyrir árin 2022 – 2024:
Tekjur og gjöld:
Grunnforsenda fyrir fjárhagsáætlun fyrir árið 2022-2024 er áætlun um fjárheimildir fyrir árið 2021.
Áætlunin tekur mið af kostnaðarverðlagi ársins 2021. Kostnaðarliðir aðrir en laun breytast í takt við spá um breytingu neysluverðsvísitölu.
Útsvarstekjur breytast á milli ára í takt við launavísitölu eins og hún er áætluð í Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands.
Gert er ráð fyrir að launakostnaður breytist í takt við spá um þróun launavísitölu í Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands.

Helstu lykiltölur úr rekstri og efnahag árin 2022-2024, samantekið A og B hluti:

  • Rekstrarafkoma á tímabilinu verður jákvæð öll árin á bilinu 24,5-42,6mkr. eða uppsafnað á tímabilinu tæpar 96,8mkr.
  • Veltufé frá rekstri verður á bilinu 73,7-85,6mkr. á ári eða um 6,5-8,1% af tekjum, hæst 8,1% árið 2022 og fer svo lækkandi til 2024 þegar það er áætlað 6,5% af tekjum.
  • Veltufjárhlutfall er áætlað 7,26 árið 2022, 7,74 árið 2023 og 8,16 árið 2024.
  • Skuldahlutfall heldur áfram að lækka en það var 24,2% árið 2019 og er áætlað um 11% árin 2022-2024.

Sveitarstjóri færir starfsfólki á skrifstofu Hvalfjarðarsveitar og forstöðumönnum öllum þakklæti fyrir þeirra mikilvæga framlag, aðkomu og vinnu við gerð fjárhagsáætlunarinnar.

 Hvalfjarðarsveit 26. nóvember 2020

Linda Björk Pálsdóttir, sveitarstjóri

Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar 2021-2024 má sjá hér