Félags- og tómstundastarf 60 ára og eldri í Hvalfjarðarsveit
Minnt er á að vetrarstarfið er hafið af fullum krafti og ánægjulegt hversu mörg taka þátt. Markmið með starfinu er að auka lífsgæði, draga úr félagslegri einangrun og viðhalda færni ásamt því að stuðla að betri andlegri og líkamlegri heilsu. Áhersla er lögð á fjölbreytt starf og aðgengi fyrir alla. Einstaklingar eru eindregið hvattir til þátttöku og að koma til að kynna sér starfið sem í boði er:
Opið hús í félagsheimilinu Miðgarði er tvisvar sinnum í mánuði, á fimmtudögum kl. 13:00-15:00, nema annað sé auglýst.
Áhersla er lögð á skemmtanagildi, tómstundaiðkun og fjölbreytta fræðslu. Kaffiveitingar eru alltaf í boði. Árlegir viðburðir eru m.a. þorrablót og vorferð.
Umsjón með opnu húsi hafa Kristrún Sigurbjörnsdóttir og Þórey Birna Björnsdóttir.
Vatnsleikfimi í Heiðarborg er alla mánudaga og miðvikudaga frá kl. 10:50 til 11:30.
Leiðbeinandi er Hanna Þóra Guðbrandsdóttir.
Vatnsleikfimin er skemmtileg leið til líkamsræktar, frábær aðferð til að styrkja vöðva, bæta úthald og auka liðleika. Áhersla er lögð á að hver og einn vinni eftir sinni getu.
Vinsamlegast skráið ykkur í vatnsleikfimi á skrifstofu Hvalfjarðarsveitar í síma 433-8500 eða á netfangið hvalfjardarsveit@hvalfjardarsveit.is.
Í boði er að kaupa hádegismat í Heiðarskóla þá daga sem vatnsleikfimin er, skráning nauðsynleg.
Íþróttamiðstöðin Heiðarborg er opin mánudaga til fimmtudaga frá kl. 16:00-21:00 og laugardaga frá kl. 10:00-15:00.
Í Heiðarborg er sundlaug, íþróttasalur og vel tækjum búinn líkamsræktarsalur.
Fjölbreyttar upplýsingar fyrir eldri borgara í Hvalfjarðarsveit má finna hér í nýútkomnu riti sem jafnframt hefur verið dreift inn á öll heimili í sveitarfélaginu.
Hlökkum til að sjá þig í starfinu í vetur!