Fara í efni

Félagsmiðstöðin 301

Félagslífið í Félagsmiðstöðinni 301 hefur verið líflegt í vetur og alltaf nóg um að vera. Í byrjun nóvembermánaðar var haldið stórt Halloweenball þar sem grunnskólunum á Akranesi var boðin þátttaka. Starfsmenn Félagsmiðstöðvarinnar 301, þær Ástdís Birta Björgvinsdóttir og Guðlaug Sara Gunnarsdóttir skipulögðu ballið ásamt nemendaráði Heiðarskóla og einnig komu nemendafélög grunnskólanna á Akranesi að skipulagningunni. Til að svona viðburðir heppnist vel þá þarf að leggja mikla vinnu í skipulag og undirbúning og það tókst mjög vel. Dj Marinó sá um tónlistina og rúmlega 250 unglingar komu á ballið. Það var rífandi stemming, mikið dansað og allir skemmtu sér vel og auðvitað var opin sjoppa. Það hafði verið beðið lengi eftir þvi að hægt væri að bjóða nágrönnum okkar á Akranesi heim og endurgjalda heimboð frá þeim.