Fara í efni

Hvalfjarðardagar 2023

Hvalfjarðardagar voru haldnir hátíðlegir sl. helgi með fjölbreyttri dagskrá víðsvegar um sveitarfélagið. Vorsýning Skýjaborgar fór fram í stjórnsýsluhúsinu í Melahverfi þar sem margskonar listaverk eftir börnin á leikskólanum prýddu veggina. Á hótel Glym var dögurður, sundlaugin og Hernámssetrið að Hlöðum var opið alla helgina og í Álfholtsskógi var Líf í lundi þar sem fram fóru víkingabúðir, mandölugerð úr skógarefni, skógarjóga, gönguferðir og fleira.

Á föstudagskvöldinu fór fram vel heppnuð kvöldvaka í Álfholtskógi í boði Norðuráls. Heiðmar Eyjólfsson og Maggi í Stuðlabandinu héldu uppi stuðinu og boðið var upp á popp. Hópferðabílar Reynis Jóhannssonar buðu upp á rútuferðir frá stjórnsýsluhúsinu í Melahverfi sem fjöldi gesta nýtti sér.

Á laugardeginum var safnið hans Jóns í Gröf til sýnis í bílskúrnum og einnig garður þeirra hjóna. Þá fór fram skemmtun að Hlöðum þar sem Sirkus Íslands mætti með atriði og sprell, markaðstjald var opið og boðið var upp á andlitsmálningu, popp, hringekju, hoppkastala og teymt undir börnum á hestum á vegum Dreyra, að ógleymdri grillveislu í boði SS, MS og Krónunnar. Á laugardagskvöldinu var frítt inn í sundlaugina að Hlöðum og flutti hljómsveitin Hoppandi kát tónlist fyrir sundlaugargesti.

Á sunnudeginum fóru fram sumartónleikar í Hallgrímskirkju í Saurbæ þar sem systkinin í Hlíð ásamt fleiri gestum fluttu ljúfa tóna fyrir fullsetinni kirkju.

Þemað í ljósmynda- og skreytingarkeppninni í ár er sirkus, senda skal ljósmyndir og myndir af skreytingum á netfangið hvalfjardarsveit@hvalfjardarsveit.is fyrir 1. júlí 2023. Vegleg verðlaun í boði frá Grand hótel Reykjavík og Stjörnugrís. Úrslit beggja keppna verða birt eftir 1. júlí nk.

Hvalfjarðarsveit þakkar öllum þeim sem komu og tóku þátt í Hvalfjarðardögum kærlega fyrir komuna í sveitarfélagið sem og öllum styrktaraðilum fyrir þeirra mikilvæga framlag. Sjálfboðaliðum og öllum þeim sem lögðu hönd á plóg eru jafnframt færðar bestu þakkir fyrir þeirra störf.

Hvalfjarðarsveit – þar sem lífið er ljúft.

Myndir frá Hvalfjarðardögum má sjá hér: