Fara í efni

Breyting á fjármögnun þjónustu við fatlað fólk – samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga

Þann 15. desember sl. var undirritað samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga varðandi fjármögnun þjónustu við fatlað fólk en samkomulagið felur í sér hækkun útsvarsprósentu sveitarfélaga með samsvarandi lækkun tekjuskattsprósentu ríkisins. Samkomulagið felur í sér að útsvarsprósenta sveitarfélaga hækki um 0,23% með samsvarandi lækkun tekjuskattsprósentu ríkisins. Hækkun útsvarsprósentu mun því ekki leiða til þess að heildarálögur á skattgreiðendur hækki.

Með vísan til ofangreinds samkomulags er byggir á breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, sem samþykkt var á Alþingi 15. desember sl., samþykkti sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar á fundi sínum þann 27. desember sl. að álagningarhlutfall útsvars fyrir árið 2024 hækki um 0,23% og verði 14,14%.

Sveitarstjórn vill árétta að skattgreiðendur borga eftir sem áður sama heildarhlutfall í útsvar og tekjuskatt, eina breytingin er að fjárhæðin sem skattgreiðendur hefðu greitt til ríkisins fer til sveitarfélaganna.