Fara í efni

Blómlegt frístundastarf í Hvalfjarðarsveit

Kynntu þér nánar hér:

Íþróttamiðstöðin Heiðarborg er miðstöð frístundastarfs í Hvalfjarðarsveit. Þar er að finna innisundlaug, heitan pott, líkamsræktarsal með nýjum tækjum og íþróttasal sem býður upp á margþætta möguleika fyrir hópíþróttir og æfingar. Heiðarborg er opin almenningi yfir vetrartímann og hentar öllum aldurshópum sem vilja stunda hreyfingu, aðgangur er gjaldfrjáls fyrir alla. Yfir sumartímann, frá maílokum fram í ágúst, er opið í sundlauginni að Hlöðum og í ár hafa rekstraraðilar laugarinnar hlotið styrki, bæði úr Íþrótta- og æskulýðssjóði og Menningarsjóði sveitarfélagsins, til eflingar íþrótta-, æskulýðs- og menningarstarfs í sumar. Styrkt eru verkefni s.s tónleikar, uppistand, upplestur/sögustund, uppsetning Wipeout-brautar, fjölskyldudagur í tengslum við Hvalfjarðardaga og sumarkeppni. Framundan er því fjölbreytt og spennandi sumar í sundlauginni að Hlöðum með fjölda viðburða.

Miklar framkvæmdir standa nú yfir við byggingu nýs íþróttahúss við Heiðarborg, það er ekki einungis íþróttakennsla grunnskólabarna sem mun njóta nýrrar aðstöðu heldur svo ótal margt fleira sem ný bygging mun færa samfélaginu. Hugsjónin er að með nýju íþróttahúsi verði Heiðarborg samfélagsmiðstöð sem rúmi skóla-, íþrótta, frístunda-, félags- og samkomustarf fyrir alla aldurshópa. Þannig er markmiðið að styðja við og efla þróun íþrótta- og frístundastarfs í sveitarfélaginu og um leið stuðla að almennri lýðheilsu allra íbúa Hvalfjarðarsveitar, t.a.m. með heilsueflingu og styrkingu forvarna. Heiðarborg hýsi og rúmi þannig til framtíðar fjölbreytt og öflugt starf öllum íbúum og gestum sveitarfélagsins til heilla og að þar sjái öll sér hag í að virkja og nýta aðstöðuna þannig að hún blómstri frá fyrsta degi.

Hvalfjarðarsveit býður upp á frístundastarf fyrir börn í 1. til 4. bekk, mánudaga til fimmtudaga, frá kl. 13:30 til 16:30, alla kennsludaga grunnskólans. Yfir sumartímann býður sveitarfélagið einnig upp á SumarGaman sem er frístundastarf fyrir börn í 1. – 4. bekk, að jafnaði 10 daga í júní eftir skólaslit og 10 daga í ágúst fyrir skólasetningu Heiðarskóla, þar fer fram fjölbreytt dagskrá með leikjum, ferðum, grilli og fleiru óvæntu.

Fyrir börn og unglinga á aldrinum 10 – 16 ára er Félagsmiðstöðin 301 starfrækt í Heiðarskóla. Starfsemi er að jafnaði vikulega og áhersla lögð á að ná til allra barna og ungmenna, sérstaklega þeirra sem þarfnast félagslegs stuðnings, með fjölbreyttum viðfangsefnum í öruggu umhverfi.

Tómstunda- og íþróttastarf er mikilvægur þáttur í lífi barna og ungmenna. Hvalfjarðarsveit styður virka þátttöku með rausnarlegum tómstundastyrkjum þar sem allir íbúar sveitarfélagsins frá fæðingu til 18 ára aldurs eiga rétt á 70.000 kr. tómstundastyrk á ári auk þess sem styrkir eru veittir til keppnis- og æfingaferða erlendis að fjárhæð 30.000 kr. hvor. Börn á tekjulágum heimilum geta jafnframt fengið sérstakan tómstundastyrk að fjárhæð 30.000 kr.

Frá janúar 2022 hefur verið í gildi samstarfssamningur við Íþróttabandalag Akraness þar sem markmið Hvalfjarðarsveitar hefur verið að styðja við öflugt íþrótta-, forvarna- og félagsstarf sem fram fer innan Íþróttabandalags Akraness og aðildarfélögum þess, fyrir samfélagið í Hvalfjarðarsveit. Samningurinn tryggir að íbúar í Hvalfjarðarsveit eigi kost á að stunda hvers kyns starf sem fram fer innan Íþróttabandalagsins og aðildarfélaga og greiðir Hvalfjarðarsveit skv. samningnum annars vegar á hvern íbúa sveitarfélagsins og hins vegar á hvern iðkanda úr Hvalfjarðarsveit. Heildargreiðsla Hvalfjarðarsveitar til ÍA árið 2024 var t.a.m. tæplega 6mkr. fyrir utan hefðbundin æfingagjöld.

Hvalfjarðarsveit tekur þátt í rekstri Tónlistarskólans á Akranesi og þar geta nemendur úr sveitarfélaginu sótt nám. Nemendur sem sækja tónlistarskólann hafa kost á að fá tónlistarkennslu í Heiðarskóla eða á Akranesi, sem stuðlar að auknu aðgengi fyrir börn í sveitarfélaginu.

Félags- og tómstundastarf fyrir 60 ára og eldri er fjölbreytt í Hvalfjarðarsveit en markmið starfsins er að auka lífsgæði, draga úr félagslegri einangrun og viðhalda færni þar sem þátttaka eykur lífsgæði. Félags- og tómstundastarf stuðlar einnig að betri andlegri og líkamlegri heilsu. Á vegum Hvalfjarðarsveitar er opið hús tvisvar sinnum í mánuði, frá september fram í maí, í félagsheimilinu Miðgarði. Þar fer fram margbreytilegt starf og ávallt er boðið upp á kaffi og kruðerí. Árlegir viðburðir í félagsstarfinu eru jafnframt þorrablót og vorferð sem hvorutveggja hefur verið vel sótt.

Hvalfjarðarsveit býður upp á vatnsleikfimi fyrir 60 ára og eldri, tvisvar sinnum í viku yfir vetrartímann í íþróttamiðstöðinni Heiðarborg. Að lokinni vatnsleikfimi geta þátttakendur fengið hádegismat í Heiðarskóla, gegn vægu gjaldi. Nánar má sjá um málefni sem snúa að eldri borgurum í Hvalfjarðarsveit hér: upplrit-vefur-9jul-2024.pdf

Í Hvalfjarðarsveit eru að auki margir hópar, félög og samtök sem efla og glæða samfélagið lífi með margvíslegu starfi sínu, þar má nefna kóra, kvenfélög, skógræktarfélag, búnaðarfélag, ungmennafélög, foreldrafélag, félag eldri borgara og hannyrðir.

Í Hvalfjarðarsveit má finna fjölbreytt frístundastarf fyrir alla aldurshópa og lögð er rík áhersla á að styðja við íþróttaiðkun og almenna virkni íbúa. Sú öfluga innviðauppbygging, sem nú á sér stað, styrkir aðstöðu til frístundastarfs enn frekar í þágu öflugs og heilbrigðs samfélags til framtíðar.