Fara í efni

Bjarki Pétursson Íþróttamanneskja Borgarfjarðar 2023

Kjör Íþróttamanneskju Borgarfjarðar 2023 fór fram við hátíðlega athöfn í Hjálmakletti 6. janúar sl. Farið var í samstarf við Ölduna, sem útbjó gjafapoka fyrir þau sem lentu í efstu 10 sætunum, auk þess sem þeir Guðmundur Ingi, Guðmundur Stefán og Ölver aðstoðuðu við verðlaunaafhendinguna. Þökkum við þremenningunum og Öldunni kærlega fyrir afskaplega ánægjulegt samstarf.

Afar jafnt var á milli þeirra efstu í kjöri Íþróttamanneskju Borgarfjarðar, en einungis munaði 0,2 stigum á 1. og 2. sætinu. Fór það svo að Bjarki Pétursson hlaut nafnbótina Íþróttamanneskja Borgarfjarðar 2023. Er þetta í sjöunda sinn sem Bjarki hreppir titilinn en hann var kjörinn íþróttamaður Borgarfjarðar í fyrsta sinn árið 2008. Hlaut Bjarki 9,6 stig í kjörinu.

Bjarki hefur á síðustu árum stigið fram sem einn af allra bestu kylfingum Íslands og var mjög nálægt því að fá keppnisrétt á sterkustu mótaröð Evrópu í golfi, og þeirri næst sterkustu í heimi. Bjarki er í landsliðshópi atvinnukylfinga á Íslandi og er einn sex kylfinga sem fá úthlutað úr „Forskoti afrekssjóði“.

Bjarki er sem stendur númer 1673 á heimslista atvinnumanna í golfi, sem er hækkun um 232 sæti á milli ára sem er frábær árangur.

Í 2. sæti var Kristín Þórhallsdóttir fyrir kraftlyftingar. 
Í 3. sæti var Helgi Guðjónsson fyrir knattspyrnu.
Í 4. sæti var Bjarni Guðmann Jónsson fyrir körfuknattleik.
Í 5. sæti var Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir fyrir frjálsar íþróttir.

Aðrir sem voru í kjörinu í stafrósröð

Brynjar Snær Pálsson – knattspyrna.
Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir – sund.
Heiður Karlsdóttir – körfuknattleikur.
Jósep Magnússon – hlaup.
Kristín Eir Holaker – hestaíþróttir.

Einnig voru veittar viðurkenningar fyrir val í landslið á árinu 2023, Maraþonbikarinn, Auðunsbikarinn og
Hvatningarverðlaun UMSB.

Sjá nánar á vef UMSB