Fara í efni

Aukin umsvif á Grundartanga

Stefnt er að stórauknum umsvifum loftslagsvænnar atvinnustarfsemi á Grundartanga og munu stjórnvöld taka virkan þátt í að kortleggja sóknarfæri, áskoranir og óvissuþætti vegna verkefna á svæðinu.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í sameiginlegri yfirlýsingu umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Elkem Ísland, Þróunarfélags Grundartanga og Orkuveitunnar, ásamt dótturfélögunum Orku náttúrunnar og Carbfix, sem Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, undirritaði ásamt fulltrúum fyrirtækjanna á Grundartanga sl. fimmtudag.

Samstarfið við fyrirtækin er liður í stefnu stjórnvalda um að festa í sessi samkeppnishæfa og loftslagsvæna stóriðjustarfsemi á Íslandi til framtíðar. Horft verður til uppbyggingar varmavirkjunar og nýtingar glatvarma frá Elkem fyrir nýja og fjölbreytta starfsemi og jafnframt til föngunar og bindingar kolefnis frá útblæstri verksmiðjunnar.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið mun framkvæma úttekt á lagaumhverfi og regluverki er lýtur að orkuendurnýtingu og föngun og bindingu kolefnis. Í kjölfarið verður metið hvort tilefni sé til breytinga til að greiða með almennum hætti fyrir þróun og uppbyggingu iðngarða á Íslandi.

Viljayfirlýsingin er í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og þá framtíðarsýn sem lögð hefur verið til grundvallar atvinnustefnu stjórnvalda, að Ísland sé samfélag þar sem verðmætasköpun er knúin áfram af sjálfbærri nýtingu auðlinda og kröftugum vexti útflutnings í atvinnugreinum með háa framleiðni.

Sjá nánari umfjöllun í frétt á vef Stjórnarráðs Íslands hér