Fara í efni

Ágangur búfjár

Á 379. fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar þann 12. júlí sl. var lagt fram álit Innviðaráðuneytisins í máli nr. IRN22050047 er snéri að beiðni um smölun sveitarfélags á ágangsfé.

Við framlagningu álitsins samþykkti sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samhljóða eftirfarandi bókun:
“Vísað er í bókun sveitarstjórnar frá fundi nr. 378, mál nr. 7, þar sem m.a. kom fram að beðið væri eftir leiðbeinandi reglum frá Innviðaráðuneytinu. Í framlögðu áliti Innviðaráðuneytisins vísar ráðuneytið málinu til Matvælaráðuneytisins að öðru leyti en því er snýr að stjórnsýslulega hlutanum, þ.e. að sveitarstjórn taki ákvörðun um smölun, þar sem um stjórnvaldsákvörðun sé að ræða. Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar telur mikilvægt að álit Matvælaráðuneytisins komi fram í formi leiðbeinandi reglna auk þess að leitað verði til Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem nauðsynlegt er að skýra mikilvæg atriði s.s. um réttarstöðu aðila, hvernig standa skuli að fyrirkomulagi á smölun ágangsfjár, óvissu um ástand girðinga, skilgreiningu á ágangi búfjár og fleiri veigamiklum atriðum þar sem gæta þarf að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga, þ.m.t. um meðalhóf, rannsóknarskyldu og andmælarétt. Samræmdar skilgreiningar á þessum mikilvægu atriðum þurfa að vera fyrirliggjandi og skýrar áður en unnt er að taka afstöðu um viðbragð og verklag vegna smölunar ágangsfjár í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar leggur áherslu á mikilvægi þess að mótaðar verði samræmdar leiðbeiningar í samræmi við lög og reglur sem við á. Sveitarstjórn áréttar að almennt er lausaganga búfjár, þ.m.t. sauðfjár, heimil í Hvalfjarðarsveit og að landeigendum ber að gæta þess að girðingar um land þeirra séu fjárheldar. Sveitarstjórn vill einnig benda á, með vísan til aðalskipulags, að engir afréttir eru í Hvalfjarðarsveit, einungis lönd í einkaeigu/heimalönd.

Sveitarstjórn felur Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd að vinna að gerð verklagsreglna um leið og samræmdar leiðbeinandi reglur liggja fyrir og í kjölfarið vísa verklagsreglunum til afgreiðslu sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn samþykkir jafnframt að meðan unnið sé að gerð verklagsreglna verði allar formlegar kvartanir er berast sveitarfélaginu varðandi ágang búfjár lagðar fyrir Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd. Formlegar kvartanir teljast þær er berast hvort sem er í gegnum tölvupóst eða símleiðis en þær sem berast símleiðis verði í formi spurninga er viðmælandi svarar. Sveitarstjórn samþykkir vegna þess framlagðan spurningalista í formi níu spurninga er viðmælandi svarar og staðfestir í gegnum síma."

Spurningalistann má sjá hér