Fara í efni

Aðgerðir Hvalfjarðarsveitar vegna Covid-19

Á fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar þann 24. mars sl. var m.a. fjallað um aðgerðir Hvalfjarðarsveitar til að koma til móts við íbúa og fyrirtæki í sveitarfélaginu vegna þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í þjóðfélaginu.  Sveitarstjórn samþykkti eftirfarandi aðgerðir á þessu stigi:

1. Komi upp þær tímabundnu aðstæður vegna ákvörðunar foreldra/forráðamanna eða vegna sóttkvíar eða gruns um smit að börn í leik- eða grunnskóla mæti ekki í skóla, skal einungis greitt fyrir nýtta þjónustu og fæði enda sé fjarvera í heilum vikum. Ákvörðun þessi er tímabundin til loka maímánaðar.

2. Varðandi önnur gjöld og skatta er beðið frekari leiðbeininga frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

3. Kannaður verði möguleiki þess að koma með auknum hætti að kynningu og eflingu ferðaþjónustu í Hvalfjarðarsveit með tilliti til þeirra aðstæðna sem hafa skapast í samfélaginu.

4. Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar tekur jákvætt í áskorun Sambands íslenskra sveitarfélaga að flýta viðhalds- og nýframkvæmdum sem fyrirhugaðar hafa verið í framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins. Sveitarstjórn horfir þá til að flýta framkvæmdum við byggingu íþróttahúss, skipulag og gatnagerð í Melahverfi verði aukin, veituframkvæmdir og viðhaldsverkefni sem eru í langtímaáætlun færist framar í tíma.
Nánari útfærsla þess efnis verður lögð fram á fundi sveitarstjórnar í apríl.

Sveitarstjórn samþykkti einnig að vegna áður útsendra reikninga fyrir leikskólagjöldum og fæðisgjöldum í grunnskóla fyrir marsmánuð, en gjöldin eru innheimt fyrirfram í upphafi hvers mánaðar, að senda ekki út reikninga fyrir aprílmánuð nú um komandi mánaðarmót. Næsti reikningur vegna þessara gjalda verði sendur út í upphafi maímánaðar og þá muni fara fram leiðrétting á marsmánuði ásamt innheimtu gjalda fyrir apríl og maí mánuði. Varðandi fæði í grunnskóla sem samkvæmt gjaldskrá er ein fjárhæð fyrir morgun- og hádegismat var samþykkt að fyrir léttan málsverð sem boðið er upp á nú í skertu skólastarfi verði gjaldið 40% af gjaldskrárfjárhæðinni.