Fara í efni

Umhverfis- og náttúruverndarnefnd 2006-2011

19. fundur 08. ágúst 2007 kl. 20:00 - 22:00

Arnheiður, Petrína, Baldvin, Gauti og Jóhanna

1. Fundargerð 18. fundar Umhverfis- og náttúruverndarnefndar Hvalfjarðarsveitar upplesin og undirrituð. Engin athugasemd gerð.

2. Umhverfisviðurkenningar 2007. Nokkrar tilnefningar hafa borist um heimagarða og býli. Arnheiður sagði að leikskólinn yrði opinn milli kl. 14 og 16 á laugardaginn kemur þann 11. ágúst, og væri það því góð hugmynd að veita viðurkenninguna þann dag kl 16:00. Jóhanna kannaði að hægt er að láta gera verðlaunaskildi fyrir föstudaginn ef texti berst f.h. á fimmtudag (morgun). Ákveðið var að setja eftirfarandi texta á skildina: a) Umhverfisviðurkenning 2007, Fegursti garðurinn b) sami texti en í stað “fegursti garðurinn” kemur; Snyrtilegasta býlið. Ef hægt er að setja merki sveitarfélagsins á skildina án vandræða verði það gert. Annars verði efsta línan: Hvalfjarðarsveit. Arnheiður athugar með eitthvað lifandi sem fylgt gæti með, s.s birkiplöntu eða blóm. Auglýst verður í dreifibréfi og á heimasíðu sveitarfélagsins. Jóhanna kemur texta til Ísspor og velur skildi, en Petrína sækir þá.

3. Umhverfisstofnun sendi nefndinni erindi um úrbætur vegna merkinga á gönguleið að Glym, en gönguleið þangað er að þeirra sögn illa merkt og hættuleg. Spurt er hvort eitthvað sé hægt að gera til úrbóta. Reynt verður að hafa samband við landeigendur og kanna hug þeirra til málsins.

4. Styrktarsjóður EBÍ 2007. Viðraðar hugmyndir um verkefni sem hægt væri að sækja um styrk til, m.a. um áningarstað á leiðinni í gegnum Hvalfjarðarsveit og lagfæring á gönguleiðinni að Glym ef landeigendur reynast jákvæðir. Einnig rætt um hvort eigi að sækja aftur um styrk til merkinga við Bláskeggsárbrú.

5. Umsókn um sorpgáma við Höfn. Arnheiður las upp bréf til sveitarstjórnar þar sem beðið er um gám undir sorp fyrir sumarhúsaeigendur í Hafnarlandi við Venus. Nefndin mælir með því að á skipulögðum frístundasvæðum séu komin 20 fullbúin hús þegar gámastöð sé sett upp, en 10 fullbúin hús þar sem setja á upp einn gám fyrir pressanlegt sorp. Í framhaldi af því mælir nefndin með því að gámur fyrir pressanlegt sorp verði settur upp í frístundabyggð í Hafnarskógi.

6. Kynnt mál:
1) Evrópsk samgönguvika 16.- 22. september.
2) Erindi frá Umhverfisráðuneyti varðandi álit ráðuneytis að hafna aðalskipulagi Skilmannahr, og Leirár- og Melahrepps að hluta.
3) Erindi til Hvalfjarðarsveitar frá Vegagerð, dag. 27. júní sl. og varðar Grunnafjörð.
4) Erindi til sveitarstjórnar er varðar Eiðisvatn.
5) Úrskurður Umhverfisráðuneytis frá 26. júní vegna stjórnsýslukæru Hvalfjarðarsveitar og fl. aðila vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunnar um matsskyldu þorskeldis AGVA ehf. í Hvalfirði.
6) Bréf frá landeigendum og ábúendum á Melaleiti er varðar dreifingu á svínaskít frá þauleldisbúinu að Melum í júlí 2007.
7) Efnistaka Björgunnar af botni Hvalfjarðar. Bréf til Orkustofnunnar.

7. Önnur mál.
1. Jóhanna Harðardóttir lagði fram svohljóðandi uppsagnarbréf: Ég undirrituð segi af mér nefndarstarfi í Umhverfis- og náttúruverndarnefnd Hvalfjarðarsveitar frá 19. fundi nefndarinnar að telja.
Á fundi þann 7. ágúst virti sveitarstjórn að vettugi skoðanir stórs hluta íbúanna og skellti skollaeyrum við góðfúslegum óskum þeirra í undirskriftalista. Af hálfu oddvita sveitarstjórnar komu fram beinar ásakanir um óheiðarleika hjá aðstandendum listans (ég er einn þeirra) og lítilsvirðing við þá sem skrifuðu undir. Ég segi því af mér fundarstarfi á vegum sveitarfélagsins, þar sem það stríðir gegn sannfæringu minni að vinna við slíkar aðstæður. Ég þakka nefndarmönnum fyrir gott samstarf og marga góða fundi.
Jóhanna G. Harðardóttir, Hlésey.
Arnheiður harmaði brotthvarf Jóhönnu og nefndin þakkaði henni samstarfið.
2. bókun: Á síðasta fundi sínum í Umhverfis- og náttúruverndarnefnd Hvalfjarðarsveitar vill Jóhanna Harðardóttir leggja ríka áherslu á að Umhverfis- og náttúruverndarnefnd gangi nú þegar til verka við að skoða málavöxtu varðandi endurnýjun starfsleyfis Járnblendifélagsins við Grundartanga. Umhverfis- og náttúruverndarnefnd leggi metnað sinn í að tryggja að félagið lúti ströngustu nútímakröfum um mengunarvarnir í nýju starfsleyfi.
Nokkrar umræður urðu um hvernig beri að standa að þessu máli og fullur hugur í nefndarmönnum að vinna það mál af kappi.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl: 22:30. Fundarritari Jóhanna Harðard.
Næsti fundur nefndarinnar áætlaður miðvikudag 12. september nk. klukkan 20.00.  

Efni síðunnar