Fara í efni

Fræðslu- og skólanefnd 2009-2014

58. fundur 13. janúar 2011 kl. 17:45 - 19:45

Birna María Antonsdóttir, Bjarni Jónsson, Hlynur Máni Sigurbjörnsson, Lára Ottesen og Valgerður Jóna Oddsdóttir sem ritar fundargerð.

Auk þeirra Helga Stefanía Magnúsdóttir skólastjóri Heiðarskóla, Helga Harðardóttir fulltrúi kennara Heiðarskóla,

Sigurður Sigurjónsson skólastjóri Skýjaborgar, Sara Margrét Ólafsdóttir fulltrúi kennara Skýjaborgar,

María H. Eggertsdóttir fulltrúi foreldra Heiðarskóla og Guðný Kristín Guðnadóttir fulltrúi foreldra Skýjaborgar. 

1. Setning fundar.

 

Formaður setur fundinn og býður fólk velkomið.

 

2. Fundargerð 57. fundar fræðslu- og skólanefndar dags. 2.desember 2010.

 

Formaður fer yfir fundargerð 57. fundar og hún undirrituð.

 

3. Mánaðarskýrsla skólastjóra Heiðarskóla fyrir desember 2010.

 

Desembermánuður einkenndist af prófum og jólaföndri. Þar sem við erum með tveggja anna kerfi þennan veturinn klárum við öll próf fyrir jólaleyfi.

Foreldrafélagið bauð upp á föndur fyrir yngstu bekkina í desember

10. bekkur bauð eldri borgurum í sveitarfélaginu upp á samveru um miðjan desember þar sem þau lásu upp og spiluðu á hljóðfæri, buðu upp á kakó og smákökur. Um 15 manns mættu af þeim 50 sem boðið var. En mæltist þetta vel fyrir og krakkarnir voru til sóma.

Unglingunum var boðið á jólaball á Varmalandi og fór hópur þangað ásamt Bjössa æskulýðsfulltrúa og einu foreldri. Þess er vert að geta að mjög vel hefur gengið að fá foreldra til liðs við æskulýðsstarf í vetur og er það ánægjulegt.

Berent Karl Hafsteinsson (Benni Kalli) heimsótti 9. bekk um miðjan desember með sinn fyrirlestur um slys og hegðun í umferðinni.

Litlu jólin voru föstudaginn 17. desember. Allir gengu saman kringum jólatréð á sal við undirleik hljómsveitar hússins skipaða nemendum og kennurum. Helgileikur yngri barna var á dagskrá í byrjun og jólasveinar

heimsóttu samkomuna. Að jólatrésgöngu lokinni fóru eldri börnin í stofur með sínum umsjónarkennurum og yngri deildin í mat. Síðan var skipt. Allir keyrðir heim á sama tíma.

Jólaleyfi starfsmanna og nemenda hófst síðan mánudaginn 20 des. Starfsmenn mættu aftur til vinnu mánudaginn 3. janúar. Boðað var til foreldraviðtala þriðjudaginn 4. janúar og var ágætis mæting. Við vorum með leiðsagnarmat í öllum bekkjum, sem er könnun þar sem nemendur /foreldrar meta og kennarar meta. Þátttaka nemenda/foreldra var vægast sagt dapurleg en líklega hefur um 20% foreldra/nemenda unnið leiðsagnarmatið fyrir foreldraviðtölin.

Venjulegt skólasatarf skv. stundaskrá hófst síðan miðvikudaginn 5. janúar. Þessa vikuna er 7. bekkur í skólabúðum á Reykum í Hrútafirði með umsjónarkennara sínum Sigríði Láru.

Nú verður óslitin námstörn næstu 8 vikurnar fram að vetrarfríi sem er vikuna 7-11 mars.

Þess má geta að starfsmenn Heiðarskóla eru að fara í náms og kynnisferð til Glasgow í vetrarleyfinu.

 

Símenntunaráætlun Heiðarskóla gerir ráð fyrir skólaheimsóknum á hverju starfsári, innanlands og fjórða hvert ár er farið erlendis til að skoða skóla, kynna sér kennslu og starfshætti erlendis, „hrista" saman starfshópinn og lífga upp á starfsandann. Þetta er í fjórða skipti sem við áætlum slíka ferð, áður höfum við farið til Esbjerg í Danmörku, Bologna á Ítalíu, Birmingham og Wales á Englandi þar sem við fórum jafnframt á stóra og mikla sýningu á námsefni og allslagt skólabúnaði.

Nú langar okkur að skoða skóla í Skotlandi. Við leggjum áherslu á að skoða „græna" skóla þar sem umhverfismennt og útikennsla, hollir lifnaðarhættir og hreyfing eru ráðandi en það er einmitt í anda þeirrar stefnu sem við vinnum að að skapa í okkar skóla. Við heimsækjum skóla í Glasgow en auk þess dreifbýlisskóla í litlum bæjum um klukkustundarfjarlægð frá Glasgow, Doune og Callander.

Mikilvægt er að allir starfsmenn ekki bara kennarar taki þátt í ferðum sem þessum og kynnist skólastarfi í öðrum skólum ekki bara á Íslandi heldur sem víðast. Einnig hefur þetta reynst kjörinn vettvangur til að upphefja starfsandann og starfsgleði fólksins þar sem fólk kemur gjarna uppveðrað og áhugasamt til baka úr slíkum ferðum fullt af nýjum og skemmtilegum hugmyndum.

 

4. Mánaðarskýrsla skólastjóra Skýjaborgar fyrir desember 2010.

 

Þann 3. desember var haldinn fundur í Umhverfisnefnd leikskólans. Farið var yfir hvernig rafmagnslausidagurinn gekk og umræður um virðingu fyrir útisvæðinu okkar. Börnin settu sér umgengnisreglur sem þau ætla sjálf að framfylgja.

Miðvikudaginn 8. desember fóru tveir elstu hóparnir í vettvangsferð á Akranes. Slökkvistöðin var heimsótt, farið var á bókasafnið, pizzur borðaðar á Galító að lokum fóru þau í heimsókn á leikskólann Akrasel.

Föstudaginn 10. desember var okkar árlega foreldrakaffi í leikskólanum. Foreldrum var boðið í heitt súkkulaði og heimabakaðar piparkökur sem börnin bökuðu sjálf. Foreldrar gátu skoðuð verkefni sem börnin hafa verið að vinna á haustönn. Góð þátttaka var í foreldrakaffinu nú sem áður.

Jólaballið okkar var haldið 15. desember. Þá vorum við með rautt þema, dönsuðum í kringum jólatréð og fengum skemmtilegan jólasvein í heimsókn. Jólasveinninn var í boði foreldrafélagsins. Í hádeginu fengu börnin svo jólamat.

Mjög rólegt var í leikskólanum frá því á Þorláksmessu og fram yfir áramót.  Meirihlutinn af börnunum var í fríi þessa daga.

Börnunum hefur fjölgað verulega í byrjun árs. Á Regnboganum byrjuðu 3 ný börn í janúar öll í elsta árganginum og eru börnin á eldri deildinni því orðin 24. Á Dropanum byrjuðu 2 ný börn og eru börnin þar orðin 13.

Föstudaginn 7. janúar var hálfur starfsdagur í leikskólanum þar sem gert var endurmat á starfi leikskólans. Sérkennsla er að aukast verulega og var sá þáttur ræddur sérstaklega. Framundan eru sértæk námskeið fyrir starfsfólk.

Leikskólastjóri var í samráðsfundi FSL í dag þar sem meðal annars var fjallað um aðalnámskrá, stöðu í vinnu samninganefndar og áhrif niðuskurðar.

Á morgun föstudag fara leikskólastjóri og aðstoðarleikskólastjóri á námstefnu til Reykjavíkur. Yfirskrift hennar er „kraftmikil stjórnun skapar verðmæti". Á námstefnunni verður unnið að markmiðum og framtíðarsýn Félags stjórnenda leikskóla (FSL).

 

5. Bréf dags. 17. desember 2010 er varðar beiðni um vistun barns yngri en 18. mánaða í leikskólanum Skýjaborg.

 

Fræðslu- og skólanefnd samþykkir þessa beiðni þar sem ekkert dagforeldri er starfandi í sveitarfélaginu. Vistun getur hafist í samráði við leikskólastjóra.

 

6. Sex ára barn í leikskóla.

 

Stúlka frá Litáen byrjaði í Skýjaborg í janúar að ósk foreldra til að aðlagast íslensku samfélagi.

 

7. Kynning á niðurstöðum úr viðhorfskönnun starfsfólks Heiðarskóla haust 2010.

 

Valgerður Jóna kynnti niðurstöðurnar.

 

8. Skýrsla námsvers Heiðarskóla.

 

Lagt fram til kynningar. Samantekt á starfi sérkennslunnar og kynning á þeim mats- og greiningartækjum sem notuð eru. Einnig stutt samantekt á niðurstöðum greininga og matsprófana.

 

9. Aukasæti í skólabílnum.

 

Þeir nemendur sem stunda tómstundir á Akranesi eiga þess kost að komast á Akranes með Akranesrútunni eftir skóla. Rætt var um mikilvægi þess að allir geti nýtt sér það. Nú eru örfáir nemendur á biðlista.

 

10. Rekstrarhagræðingar í skólakerfinu.

 

Almenn umræða.

 

11. Önnur mál.

 

Skólastjóri var spurður um hvort skólanámskrá og starfsáætlun væri tilbúin. Sú vinna er í gangi.

 

Fundi slitið kl. 19:20

 

Birna María Antonsdóttir

Valgerður Jóna Oddsdóttir sem ritar fundargerð

Bjarni Jónsson

Hlynur Máni Sigurbjörnsson

Lára Ottesen 

Efni síðunnar