Fara í efni

Laust starf byggingarfulltrúa

Laust er til umsóknar starf byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar. Um er að ræða 100% starf innan stjórnsýslu sveitarfélagsins. Leitað er að metnaðarfullum aðila til að stýra fjölbreyttum verkefnum í byggingarmálum sveitarfélagsins. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.

Helstu verkefni og ábyrgðarsvið:
Byggingarfulltrúi hefur yfirumsjón með byggingarmálum sveitarfélagsins, þjónustar íbúa Hvalfjarðarsveitar á því sviði, er ráðgefandi fyrir sveitarstjórn og nefndir og vinnur skv. samþykktum þeirra. Eftirfarandi heyrir m.a. undir verkefna- og ábyrgðarsvið byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar:

  • Byggingareftirlit og umsjón með byggingarmálum sveitarfélagsins.
  • Móttaka og afgreiðsla byggingarleyfisumsókna og stöðuleyfa.
  • Framkvæmd úttekta og útgáfa leyfa ásamt staðfestingu eignaskiptayfirlýsinga.
  • Ráðgjöf varðandi byggingarmál.
  • Samskipti við hagsmunaaðila.
  • Skráning og viðhald vegna Fasteignaskrár Íslands og landupplýsingakerfis.
  • Umsjón með lóðaúthlutunum sveitarfélagsins.
  • Gerð starfs- og rekstraráætlana fyrir þá málaflokka sem undir hann heyra.
  • Önnur verkefni sem byggingarfulltrúa eru falin af yfirmanni, þá helst er tengjast skipulagsmálum.    

Byggingarfulltrúi ber ábyrgð á meðferð og varðveislu gagna, úrvinnslu og upplýsingagjöf, stefnumótun, þróun verklags og þjónustugæða. 

Almennt stjórnunarsvið:
Byggingarfulltrúi starfar og stjórnar í samræmi við lög og reglugerðir sem gilda um byggingar- og skipulagsmál sveitarfélaga, eftir lögum er varða opinbera þjónustu og stjórnsýslu, samkvæmt markmiðum sveitarstjórnar og í samræmi við fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar á hverjum tíma.

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Háskólamenntun á sviði byggingarmála sbr. 8. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010.
  • Góð þekking og reynsla á sviði byggingarmála er æskileg.
  • Þekking á notkun skráningarkerfis fasteigna hjá Þjóðskrá er æskileg.
  • Reynsla af notkun kerfanna One System, Navision og AutoCAT eða Microstation er kostur.
  • Reynsla af störfum í opinberri stjórnsýslu er kostur.
  • Reynsla af þátttöku í stefnumótandi áætlanagerð og gerð rekstrar- og fjárhagsáætlana er kostur.
  • Færni í mannlegum samskiptum auk forystu- og skipulagshæfileika.
  • Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum.
  • Hæfni til að tjá sig í ræðu og riti.
  • Viðkomandi skal hafa löggildingu sem hönnuður skv. 25. gr. mannvirkjalaga nr.160/2010.
  • Æskilegt er að viðkomandi sé með réttindi í skipulagsmálum sbr. 7. gr. skipulagslaga nr.123/2010.

Kjör:
Laun og starfskjör eru samkvæmt kjarasamningum viðkomandi stéttarfélags  og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Umsóknarfrestur er til og með 30. nóvember 2020.  Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.

Umsókn skal fylgja ítarleg starfsferilsskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni viðkomandi í starfið.        
Umsókn skal senda á skrifstofu Hvalfjarðarsveitar, Innrimel 3, 301 Akranes eða á netfangið hvalfjardarsveit@hvalfjardarsveit.is
Nánari upplýsingar um starfið veitir Linda Björk Pálsdóttir sveitarstjóri í síma 433-8500 og á netfanginu linda@hvalfjardarsveit.is

 Hvalfjarðarsveit er öflugt sveitarfélag með um 650 íbúa. Náttúrufegurð er mikil og möguleikar til að njóta fjölbreyttrar útiveru eru óþrjótandi. Hvalfjarðarsveit er dreifbýlt sveitarfélag með litlum íbúakjörnum. Þar er nægt lóðaframboð, fjölbreytt atvinnutækifæri, öflugur landbúnaður, vaxandi ferðaþjónusta og metnaðarfullt skólastarf.
Mikil uppbygging hefur átt sér stað á atvinnusvæðinu við Grundartanga með fjölbreyttum fyrirtækjum. Hvalfjarðarsveit er í nálægð við þéttbýli og í góðu samstarfi við nágrannasveitarfélög. Nánari upplýsingar má finna á www.hvalfjardarsveit.is