Fara í efni

Tónleikaröð Hallgrímskirkju í Saurbæ

 30. júní 2019, kl. 16.00

Ragnheiður Ólafsdóttir, Hermann Stefánsson og Snorri Skúlason

Hlaðir hljómleikar

Efnisskráin er fjölbreytt: Þarna verður kveðskapur, sálmar, þjóðlög, bæði íslensk og frá Norðurlöndunum og lög eftir Ragnheiði við ljóð ýmissa skálda. Séra Hallgrímur kemur við sögu, við tóna sem ekki hafa áður tengst kveðskap hans. Einnig verða leikin nýrri lög við ljóð Einars Benediktssonar, Ólafar frá Hlöðum og fleiri.
Ragnheiður Ólafsdóttir er ættuð úr Borgarnesi. Hún söng víða á árum áður en flutti svo til útlanda og bjó í Noregi, Ástralíu og Hong Kong í nærri tuttugu ár. Árið 2001 gaf hún út diskinn "Söng riddarans" ásamt Þórarni Hjartarsyni, við ljóð Páls Ólafssonar.
Meðleikarar Ragnheiðar eru Hermann Stefánsson, gítar og Snorri Skúlason, kontrabassiþ Ragnheiður og Hermann hafa komið fram í ýmsum skyndi-hljómsveitum í Reykjavík, síðast með Megasi í Mengi og á útgáfuhátíð 2005 í Eymundsson í Austurstræti.
Hermann Stefánsson er rithöfundur og tónlistarmaður. Hans besta bók að mati Ragnheiðar er Bjargræði, sem fjallar um Látra-Björgu og er stórskemmtileg og fróðleg. Hermann er rithöfundur sem tekur samtíma sinn alvarlega, en nýtur sín ekki síður í tónlistinni.
Snorri Skúlason hefur nýlokið burtfararprófi frá Tónlistarskóla FÍH og stefnir á framhaldsnám í Hollandi í haust.
Hann hefur spilað margskonar tónlist: jazz, salsa og sinfóníur.

Um Hallgrímskirkju í Saurbæ:

Hallgrímskirkja í Saurbæ er sögulega og menningarlega mikilvægur staður fyrir Íslendinga. Þarna bjó Hallgrímur Pétursson og samdi Passíusálmana, sem eru dýrgripir í menningarsögu Íslands. Það er dýrmætt að halda þessum stað lifandi og virkum. Kirkjan hefur látið á sjá síðustu ár og nauðsynlegt að dytta að ýmsu. Í kirkjunni er fallegt orgel og flygill og húsið hefur mjög fallegan hljómburð. Það er von að sem flestir tónlistarmenn vilji taka þátt og flytja verk sín og annarra á þessum fallega stað.

 Inngangseyrir er 1.500 kr. en ekki tekið við kortum.

Allir hjartanlega velkomnir.

 Allur ágóði rennur í sjóð til styrktar staðnum. Þeir sem ekki sjá sér möguleika að mæta á tónleikana en vilja styrkja málefnið geta lagt inn á söfnunarreikning:  0552-14-100901 kt 590169-2269.

Hótel Glymur verður með tilboð á réttum fyrir tónleika og 20% afslátt af matseðli. 

Bjarteyjarsandur er með tilboð á vöfflum á tónleikardögum. Vaffla með rjóma, heitt súkkulaði, kaffi og/eða swiss mokka á 1.000 kr. Opið frá hádegi.